Skoðun

Sagan af lífeyrinum dýra

Guðlaug Kristjánsdóttir skrifar
Lífeyriskjör opinberra starfsmanna hafa sætt mikilli gagnrýni að undanförnu. Talsmenn almenns markaðar hafa þar verið áberandi, en ekki síður þingmenn.

Gagnrýnt hefur verið að lífeyrir opinberra starfsmanna njóti ríkisábyrgðar sem þurfi að fjármagna með skattgreiðslum alls vinnumarkaðar.

En hver eru þá þessi ofurkjör?

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna ganga í megindráttum út á það að lífeyrir sé tryggður sem tiltekið hlutfall af lokalaunum. Verði tvísýnt um að innistæða verði í sjóðum til að greiða út lífeyri, skuli auka inngreiðslur frá vinnuveitanda.

Lífeyriskjör opinberra starfsmanna hafa löngum haft þá tilhneigingu að halda niðri launum þeirra, enda lífeyrisloforð talin þeim til tekna. Heildarkostnaður launagreiðandans sé með öðrum orðum svo ærinn vegna lífeyrishlutans, að þess verði að sjást merki í launaumslaginu. Ekki skal hér fullyrt að sá 20-30% launamunur sem aðskilur almennan og opinberan vinnumarkað með viðvarandi hætti, eigi allur að skrifast á reikning lífeyrissparnaðar, en ef svo væri má sjá hvaða verði opinber launþegi greiðir lífeyriskjör sín á starfsævinni.

Lífeyriskerfi á Íslandi byggir á þremur stoðum; lífeyrissparnaði, almennum sparnaði og almannatryggingum. Ríkið ábyrgist sína starfsmenn sem vinnuveitandi og vissulega njóta sjóðfélagar í B-deild LSR ríkisábyrgðar á sínum lífeyrisgreiðslum.

Almannatryggingakerfið tryggir fyrst og fremst þá sem hafa lítil réttindi í lífeyrissjóðum. Áhugavert er að skoða samspil stoðanna – almannatrygginga (sem eru fjármagnaðar með skattgreiðslum) og lífeyrissjóða (sem eru fjármagnaðir með lífeyrissparnaði).

Þegar samspil stoðanna er greint kemur í ljós eftirfarandi mynd: Almannatryggingar gera ráð fyrir því að allir yfir 67 ára aldri fái í sinn hlut tiltekna lágmarksgreiðslu sem er fyrir einstaklinga 180.000 krónur og fólk í sambúð 153.500.

Lífeyrissparnaður dregst frá framlagi almannatrygginga, með tilteknu skerðingarhlutfalli.

Kostnaður ríkisins við að tryggja öldruðum framfærslu er því í beinu sambandi við lífeyriskjörin í landinu. Ef fleiri hefðu lítinn lífeyri, yrði kostnaður ríkissjóðs meiri, þannig að í raun virka lífeyrisgreiðslur sem niðurgreiðsla inn í almannatryggingakerfið.

Yrði fólk yfir 67 ára aldri að lifa á tryggingabótum einum en fengi ekki lífeyri eða aðrar tekjur, væri kostnaður ríkissjóðs af því 65 milljarðar króna á ári. Þessi kostnaður var árið 2009 25 milljarðar, þannig að hlutur lífeyris til niðurgreiðslu almannatrygginga er allt að 40 milljarðar.

Hið sama á við um kostnað vegna dvalar á elli- og hjúkrunarheimilum, lífeyrisgreiðslur ganga þar upp í kostnað sem annars er greiddur af almannatryggingum.

Ef tekið er tillit til allra jaðaráhrifa skatta og það skoðað hver nettóávinningur lífeyrisgreiðslna er (umfram 180 þúsund krónurnar sem einstaklingur fengi ef hann ætti engan lífeyrisrétt) kemur eftirfarandi í ljós: Sá sem fær í sinn hlut 260 þúsund krónur úr lífeyrissjóði (sem samsvarar lokalaunum u.þ.b. 400 þúsund eftir meðallanga starfsævi) hefur nettó 20 þúsund umfram 180 þúsundin sem hann annars fengi frá almannatryggingum. 260 þúsund krónur í lífeyri er vel ofan meðallags. Nettó ávinningur af lífeyrisgreiðslum frá 0 krónum upp í 500 þúsund er frá því að vera enginn og upp í að vera 150 þúsund krónur.

Það eru heldur rýr kjör að fá til sín 20 þúsund krónur á mánuði eftir áratuga lífeyrissparnað og því mætti spyrja hvort lífeyrissparnaður gefi launamönnum nokkuð í aðra hönd. Á það ber hins vegar að líta að ef enginn væri lífeyririnn, væri heldur engin 180 þúsund króna lágmarkstrygging af almannafé – það væri einfaldlega ekki fótur fyrir slíku.

Forysta launafólks sér ennfremur hag í því að launamenn haldi sjálfir utan um sína sjóði og réttindi í þeim, því eins og ljóst er orðið í tilfelli fæðingarorlofssjóðs, eiga slíkir sjóðir mjög undir högg að sækja innan ríkisreikningsins og hætt við því að áunnin réttindi séu skert þegar ríkissjóður stendur illa.

Þegar nettóávinningur af sæmilegum lífeyri er settur í samband við framlagið til almannatrygginga, hlýtur að vera morgunljóst að rökin fyrir því að laun ríkisstarfsmanna þurfi að vera lægri en á almennum markaði vegna betri lífeyriskjara halda ekki vatni. Eða hvers vegna ætti að refsa launafólki í opinbera geiranum fyrir það að rífleg framlög í lífeyrissjóði auðveldi hinu opinbera að tryggja 180 þúsund króna lágmarksframfærslu þeirra sem lakari hafa lífeyriskjörin?
Páll Páll Halldórsson varaformaður BHM



Skoðun

Sjá meira


×