Skoðun

Niðurskurður og starf í framhaldsskólum

Aðalheiður Steingrímsdóttir skrifar
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár eru gerðar tillögur um hátt í 6% niðurskurð á fjárveitingum til framhaldsskóla. Hann á að koma ofan á mikinn niðurskurð á þessu ári og mikla hagræðingu í rekstri á liðnum árum. Í skýrslum OECD um menntamál kemur fram að árleg útgjöld vegna hvers nemanda í íslenskum framhaldsskólum lækkuðu að raunvirði milli áranna 2006 og 2007 og voru þegar á þeim árum lág í alþjóðlegum samanburði.

Það á við hvort sem mælt er á jafnvirðismælikvarða eða sem hlutfall af landsframleiðslu á íbúa. Ef notaður er jafnvirðismælikvarðinn þá voru útgjöld á Íslandi árið 2007 á hvern framhaldsskólanema 11% undir meðaltali OECD en 19% undir meðaltalinu ef útgjöldin eru mæld sem hlutfall af landsframleiðslu á íbúa. Frá því að kreppan skall á hafa útgjöld til skólanna dregist mikið saman og nú er komið að endamörkum. Enginn sem þekkir rekstur framhaldsskóla telur mögulegt að skólarnir geti staðið undir þeim niðurskurði sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Nýjar rannsóknir Guðrúnar Ragnarsdóttur, lýðheilsufræðings og framhaldsskólakennara, á áhrifum efnahagskreppu á starfsumhverfi nemenda og kennara í framhaldsskólunum sýna að niðurskurður undanfarinna ára hefur haft veruleg áhrif. Rannsóknin leiðir í ljós samdrátt í launum kennara en á sama tíma hefur nemendum fjölgað og fjöldi kennara nánast staðið í stað. Námshópar hafa stækkað og kennarar hafa minni tíma til að sinna einstaklingsmiðaðri kennslu. Stór hluti kennara finnur fyrir streitu og álagi í starfi vegna aðgerða í skólunum sem tengjast kreppunni. Grunnþjónusta við nemendur hefur verið skorin niður sem birtist m.a. í minni stuðningi við þá, fábreyttara námsframboði og kennsluháttum, færri kennslustundum í áföngum og fjölmennari námshópum. Minni þjónusta bitnar einkum á nemendum sem standa höllum fæti í námi og hafa minna fjárhagslegt svigrúm. Allt eru þetta áhættuþættir í brotthvarfi frá námi.

Enn er ótalið að ein niðurskurðartillagan í fjárlagalagafrumvarpinu birtist í því að kippt verði úr skólunum fjármunum til lögbundins sjálfsmats. Um þá fjármuni er fjallað í kjarasamningum. Því er um að ræða atlögu að kjarasamningum framhaldsskólakennara og brot á stöðugleikasáttmálanum þar sem segir – að ekki verði gripið til lagasetninga eða annarra stjórnvaldsaðgerða sem hafa bein áhrif á innihald kjarasamninga eða kollvarpa með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggja á. Kjarasamningar framhaldsskólans renna út í nóvemberlok eins og samningar mikils fjölda launafólks. Ljóst er að áform um að seilast inn í kjarasamninga og forsendur þeirra munu hafa slæm áhrif á samningsgerð milli kennarasamtakanna og ríkisins.

Framhaldsskólarnir eru hluti af velferðarstofnunum samfélagsins. Vegna niðurskurðarins undanfarin ár eru skólarnir komnir hættulega nærri hengiflugi. Gangi sá niðurskurður eftir sem boðaður er í fjárlagafrumvarpi næsta árs mun það hafa í för með sér mikið samfélagslegt tjón.



Skoðun

Sjá meira


×