Skoðun

Framtíð verkfræðináms á Íslandi

Jóhanna Harpa Árnadóttir skrifar
Flest okkar eru sammála um að öflugir háskólar eru forsenda framþróunar nútíma þjóðfélags. Hlutverk kennslu og rannsókna er ótvírætt og til hagsbóta fyrir samfélagið. Innan veggja háskólanna er að finna fræðimenn sem sinna störfum sínum af kostgæfni og hugsjón. Þar, eins og víða annars staðar, á sér stað hagsmunabarátta þegar rekstrarfénu er deilt niður því allir vilja jú veg sinna fræða sem mestan. Á tímum niðurskurðar og óvissu, verða stjórnvöld að axla þá ábyrgð að marka langtímastefnu um menntun og hlutverk háskólanna í samvinnu við háskólasamfélagið.

Í ljósi aðstæðna var fyrirsjáanlegt að niðurskurður í ríkisfjármálum yrði verulegur í fjárlagafrumvarpi komandi árs sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Hvernig að þeim niðurskurði verður staðið mun snerta flest alla fleti velferðarkerfisins og á því einnig við um menntastofnanir landsins. Háskólanir fara ekki varhluta af niðurskurðinum en undrun sætir að verulegur mismunur er gerður eftir fögum. Framlög til námsbrauta á sviði tækni- og raungreina eru skert mun meira en framlög til annarra greina. Það þýðir að hætt er við að skorið verði niður í verklegum fögum hjá deildum í verk- og tæknifræði, en þau eru jú kostnaðarsamari en hin bóklegu. Fyrir vikið verður kennslan rýrari og erfitt að sjá hvernig hægt verði að tryggja hinn skapandi þátt námsins og halda uppi gæðum þess til lengri tíma. Á meðan ekki er til staðar stefnumótun, eða framtíðarsýn, um menntun á háskólastigi á Íslandi er ekki hægt annað en að túlka þessar aðgerðir sem stefnumarkandi fyrir málaflokkinn.



Breytingar samhliða niðurskurði

Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) er fagfélag sem m.a. stendur vörð um hið lögverndaða starfsheiti og gæði verkfræðinámsins. Samkvæmt lögum hafa þeir menn einir rétt til að kalla sig verkfræðinga, sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra, enda hafi þeir lokið námi frá fullgildum verkfræðiskóla. Í samvinnu við iðnaðarráðuneytið hefur VFÍ sett fram þær menntunarkröfur sem þarf til að öðlast starfsheitið verkfræðingur. Forystu félagsins er fyrirhugaður niðurskurður áhyggjuefni og var það erindi fundar með ráðherra menntamála, Katrínu Jakobsdóttur, í sl.viku.

Ráðherra sýndi málinu skilning en taldi að stjórnendur skólanna hefðu verið upplýstir um fyrirhugaðar breytingar á líkani því, sænsku að uppruna, sem lagt er til grundvallar útreikningum á nemendaígildum. Því hefði niðurstaðan ekki átt að koma á óvart. Hvert svo sem upplýsingaflæðið hefur verið, samhliða vinnu við fjárlögin, er ljóst að víðtækara samráð hefði þurft að eiga sér stað á milli ráðuneytisins, stjórnenda háskólanna og annarra sérfræðinga eftir því sem við á. Þannig hefði mátt vinna að útfærslu sem væri í takt við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um nauðsyn þess að styðja við nýsköpun og uppbyggingu þekkingariðnaðar í stað þess að höggva í undirstöðurnar með skerðingu á framlögum til tækni- og raungreinanáms umfram aðrar greinar. Það hefur eflaust verið löngu tímabært að auka framlög til félagsvísindanna en miður að það sé nú gert á kostnað annarra greina. Slík áherslubreyting, samhliða niðurskurði, er augljóslega innlegg í þróun menntamála og með því er dregið úr gæðum verk-og tæknifræðimenntunar. Lítilsháttar aukning, eða minnkun, á grunnbreytu í líkani getur haft margfeldisáhrif þegar niðurstaðan er fundin. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að til staðar sé gegnsæi, við útreikninga á framlögum til háskólanna, svo það liggi ljóst fyrir hverjar forsendurnar eru og hvernig niðurstaðan er fengin.



Hvernig viljum við vera?

Framan af 20. öldinni þurftu íslenskir verkfræðingar að sækja menntun sína til útlanda. Hinir fyrstu komu heim með menntun sem þeir náðu að aðlaga og nýta við mjög svo erfiðar aðstæður. Með tilkomu verkfræðináms við Háskóla Íslands á sínum tíma höfum við svo getað sinnt æ stærri og flóknari verkefnum, til góðs fyrir almannaheill. Öflugir verkfræðingar og tæknifræðingar eru forsenda þess að tæknivædd þekkingarfyrirtæki geti fæðst, vaxið og dafnað í landinu. Okkur er eiginlegt að bera okkur saman við Norðurlandaþjóðirnar sem skýrist af hlutdeild okkar í hinum norræna menningararfi. Bæði Finnar og Svíar brugðust við kreppum, óháð tilurð þeirra, á síðasta áratug 20.aldar með því að leggja sérstaka áherslu á að efla tækninám. Það ætti því að vera nærtækt að beita sambærilegum aðferðum og þessar þjóðir gerðu með góðum árangri. Staðreyndin er hins vegar sú að íslenskir háskólar fá aðeins um 46% af þeim framlögum sem háskólar í Danmörku fá og 61% af þeim framlögum sem háskólar í Svíþjóð fá. Sá munur er meiri í tæknigreinum en félags- og hugvísindum. Með ítrekuðum niðurskurði í framlögum til háskóla á Íslandi hafa stjórnendur skólanna þurft að aðlaga sig þeim veruleika í von um að upp muni birta um síðir. Í máli menntamálaráðherra kom fram að til stæði að farið yrði í endurskoðun á þeim flokki í líkaninu sem verk-og tæknifræðinámið er sett í. Í stað þess að miða við fjársveltar greinar tækni- og raunvísinda við íslenska háskóla við ákvörðun framtíðarfjárveitinga, vill forysta Verkfræðingafélags Íslands hvetja ráðherra/stjórnvöld til að horfa til nágrannaþjóða okkar í fyrirhugaðri endurskoðun, og finna okkur stað meðal þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við.






Skoðun

Sjá meira


×