Erlent

Tíu lögreglumenn slösuðust þegar útsala fór úr böndunum

Tíu lögreglumenn slösuðust í gær þegar átök brutust út á meðal tvö þúsund manna sem biðu eftir því að útsala hæfist hjá American Apparel versluninni á Brick Lane í London. Fyrirtækið varð að aflýsa útsölunni en hún hafði verið auglýst á Facebook og öðrum samskiptasíðum á Netinu. Á youtube má sjá hvernig lögreglumenn þurftu að beita fangbrögðum til þess að hafa hemil á kaupóðu fólkinu.

Talsmaður Scotland Yard staðfesti að tíu lögreglumenn hefðu þurft að fara á slysadeild en enginn þeirra slasaðist þó alvarlega. Þrír voru handteknir í uppþotinu. Talsmenn verslunarinnar segjast ætla að auka á öryggisgæslu áður en hægt verður að hefja útsöluna.

Á vefsíðu Sky má sjá myndbandið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×