Skoðun

Efling heilsugæslunnar

Haraldur Sæmundsson og Héðinn Jónsson skrifar

Aðstæðurnar í samfélaginu krefjast þess að við hugsum málefni heilsugæslunnar upp á nýtt og gerum hana að eftirsóknarverðum vinnustað sem starfsfólk er stolt af. Við fögnum því að málefni heilsugæslunnar séu rædd á þingi og fái aukið vægi í umræðunni. Mikilvægt er að umræðan sé á faglegum forsendum og allir sem hlut eiga að máli komi með sín sjónarmið og hugmyndir að borðinu.

Heilsugæslunni er vandi búinn. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður fólks sem vill gæta að heilsu sinni. Nú er stór hluti landsmanna sem ekki treystir eða getur treyst á að heilsugæslan sé þeirra fyrsti viðkomustaður. Efling heilsugæslu hefur verið á verkefnaskrá ríkisstjórna um langt skeið. Skortur á heimilislæknum og vandkvæði við að fylla þær námsstöður sem í boði eru hefur einkennt umræðuna um vanda heilsugæslunnar. Í frétt Fréttablaðsins fimmtudaginn 9. desember er rætt um hugmyndir þingmanna að lausnum vanda heilsugæslunnar.

Þau verkefni sem heilsugæslan stendur frammi fyrir eru mörg hver flókin og mikilvægt er að horfa á heilsugæsluna sem heild en ekki einblína á eina fagstétt í þessum efnum. Þverfagleg vinna og breytt verkaskipting milli heilbrigðisstétta er klárlega nokkuð sem þarf að horfa til þegar unnið er að stefnumótun fyrir heilsugæsluna. Einstaklingurinn sem leitar til heilsugæslunnar á að vera útgangspunkturinn í slíkri stefnumótun. Ef gera á heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað einstaklinga þarf að efla trú almennings á henni. Til að heilsugæslan sé trúverðug þarf hún að hafa á að skipa fjölbreyttum fagstéttum sem geta í sameiningu leyst bæði einföld og flókin vandamál á faglegan og hagkvæman hátt.

Meðal þeirra stétta sem komið geta að slíku starfi eru sjúkraþjálfarar líkt og tíðkast víða erlendis s.s. í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Með því að kalla fleiri heilbrigðisstéttir inn í heilsugæsluna og nýta þverfaglega teymisvinnu við úrlausn heilsufarslegra viðfangsefna má létta á vinnuálagi heimilislækna og stytta bið einstaklinga eftir þjónustu. Sem dæmi má nefna að stór hluti af komum á heilsugæsluna í dag er vegna stoðkerfisvandamála. Sérhæfð menntun og djúpstæð þekking sjúkraþjálfara á stoðkerfi og starfsemi líkamans gæti þar komið að góðum notum.

Ef vel tekst til með stefnumótun fyrir heilsugæsluna gæti þar falist lykillinn að lausnum á þeim heilsufarsvandamálum sem að okkur steðja og þar með bætt heilsu landsmanna.




Skoðun

Sjá meira


×