Erlent

Vonir björgunarmanna dvína

Óvíst var um örlög fjögurra námuverkamanna.
Nordicphotos/AFP
Óvíst var um örlög fjögurra námuverkamanna. Nordicphotos/AFP
„Þetta var löng og erfið nótt,“ sagði Joe Manchin, ríkisstjóri Vestur-Virginíu, sem hefur fylgst með björgunaraðgerðum við kolanámuna í Montcoal, þar sem fjórir kolanámumenn hafa verið innilokaðir síðan á mánudag.

Reynt var að halda í vonina um að mennirnir væru enn á lífi, en 25 manns fórust í þessu versta námuslysi Bandaríkjanna undanfarna tvo áratugi.

Tilraunir hafa verið gerðar til að bora leið inn í tvö rými þar sem mennirnir hefðu getað leitað skjóls eftir að sprenging varð í námunni. Þar eiga að vera til matarbirgðir og súrefni sem dugar 24 námumönnum í fjóra daga, en vegna þess að mennirnir eru aðeins fjórir þá er líklegt að þetta dugi þeim lengur.

Í gær tókst að bora leið inn í annað rýmið en vegna reyks þurftu björgunarmenn að hverfa frá áður en hægt væri að ná inn í seinna rýmið. Svo virtist þó sem vonir björgunarmanna færu dvínandi um að mennirnir fjórir væru enn á lífi.

Þetta var í þriðja sinn sem björgunarmenn höfðu þurft að hverfa frá síðan björgunaraðgerðir hófust á mánudaginn. Óttast var að hættuleg eiturgös í námunni gætu valdið nýrri sprengingu.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×