Lífið

Hera vinnur hommana á sitt band

Friðrik Ómar segir að Hera Björk hafi unnið á sitt band einn mikilvægasta aðdáendahópinn; hommana. Hann spáir laginu velgengni í kvöld.
Friðrik Ómar segir að Hera Björk hafi unnið á sitt band einn mikilvægasta aðdáendahópinn; hommana. Hann spáir laginu velgengni í kvöld.

Hera Björk Þórhallsdóttir hefur unnið einn mikilvægasta þrýstihópinn í Eurovision-keppninni á sitt band, hommana. Þetta segir Friðrik Ómar Hjörleifsson sem tryllti Eurovision-aðdáendur í gærkvöldi á miklu Eurovision-balli á einum stærsta skemmtistað Noregs, Latter. Friðrik hefur sjálfur reynslu af Eurovision, söng að sjálfsögðu með Eurobandinu fyrir tveimur árum og var bakrödd í rússneska ævintýrinu hjá Jóhönnu Guðrúnu.

Friðrik bendir á að Eurovision sé mikil hommakeppni og þeir geti haft áhrif á útkomuna, hópurinn haldi úti fjölda fréttasíðna um Eurovision sem síðan stærri fjölmiðlarnir skoði. „Þeir dýrka hana, hún er fullkomin í þeirra augum og þetta getur haft mikið að segja þegar á hólminn er komið. Hún hefur líka verið dugleg að byggja upp þetta net, danska lagið sem hún söng í fyrra sló í gegn hjá Eurovision-aðdáendum, var valið besta lagið af þeim sem ekki komust í keppnina sjálfa, og svo hefur hún verið bakrödd hjá Jóhönnu og Eurobandinu þannig að þessi hópur þekkir hana orðið mjög vel,“ segir Friðrik.

Hann viðurkennir að hafa haft trú á að lagið kæmist í gegnum undanriðilinn en var óviss um framhaldið. Sú skoðun hefur heldur betur breyst. „Eftir að hafa séð hin lögin sýnist mér að okkar framlag smellpassi inn í keppnina og Hera virðist því vera á réttum stað á réttum tíma. Sem skiptir miklu máli,“ segir Friðrik sem spáir Íslandi þriðja til fimmta sæti. „En auðvitað vonar maður að hún vinni.“ - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.