Innlent

Ljúka á þinghaldi á morgun

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir stefnir enn að því að síðasti þingfundur fyrir sumarfrí verði á morgun.fréttablaðið/anton
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir stefnir enn að því að síðasti þingfundur fyrir sumarfrí verði á morgun.fréttablaðið/anton

Enn er stefnt að því að ljúka þinghaldi á morgun og reynt verður til þrautar að ná samkomulagi þar um í dag. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segist vongóð um að það náist.

Til þess þarf að flytja hluta þingmála, sem nú liggja fyrir, til haustsins, en þing verður sett á ný í september. „Eitthvað af málum ætti að geta beðið fram í september, til þess var það þing nú sett á laggirnar. Þá er hægt að skoða mál sem þarf að vinna enn frekar og ég hvet menn til að nýta sér það.“

Ásta Ragnheiður stefnir að því að láta starfsáætlun ganga upp, en samkvæmt henni er síðasti fundur fyrir sumarfrí á morgun. Hún segir að fundurinn á morgun gæti orðið langur, eigi það að nást.

„Það er lítill ágreiningur um stóran hluta þeirra mála sem fyrir þinginu liggja, en það eru nokkur mál sem menn eru að skoða og þarf að ná samkomulagi um. Formenn flokka koma á minn fund á morgun [í dag] og við reynum að ná saman.“

Ásta segir að frumvörp er lúta að aðgerðum til bjargar heimilum séu í góðum farvegi og á von á að þau komi að mestu leyti inn í þingið í dag, í góðri sátt allra flokka.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×