Erlent

Ekki sprenging innanborðs í herskipinu

Óli Tynes skrifar
Framhluti herskipsins hífður af hafsbotni.
Framhluti herskipsins hífður af hafsbotni. Mynd/AP

Forseti Suður-Kóreu hefur lofað þjóðinni að gripið verði til ákveðinna aðgerða ef í ljós komi að herskipið sem sprakk í tvennt og sökk í síðasta mánuði hafi orðið fyrir einhverskonar árás.

Lee Myung-bak táraðist þegar hann flutti sjónvarpsávarp til þjóðarinnar og las upp nöfn þeirra fjörutíu og sex sjóliða sem fórust með korvettunni Cheonan.

Skipið var 1200 tonn að stærð með 108 manna áhöfn. Búið er að ná flaki korvettunnar upp á yfirborðið og verið er að rannsaka hvað olli sprengingunni.

Erlendir sérfræðingar hafa verið kvaddir til að aðstoða við rannsóknina. Þessir sérfræðingar eru sagðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi orðið sprenging innanborðs í skipinu.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa gætt þess að kenna Norður-Kóreu ekki opinberlega um aðild að málinu.

Menn eru að velta fyrir sér tveim möguleikum. Chenon gæti hafa rekist á gamalt tundurdufl úr Kóreustríðinu. Og svo er sá möguleiki fyrir hendi að norðanmenn hafi sökkt skipinu með tundurskeyti.

Ef sú verður niðurstaðan er Suður-Kóreu vandi á höndum. Varla er hugsanlegt að gripið verði til hernaðaraðgerða.

Líklegasta leiðin er að kalla Sameinuðu þjóðirnar að málinu til þess að refsa Norður-Kóreu með efnahagsþvingunum. Landið sætir raunar þegar ströngum refsiaðgerðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×