Innlent

Lengsta samdráttarskeiðinu að ljúka

Þórarinn G. Pétursson
Þórarinn G. Pétursson
Efnahagsbati hér á landi verður drifinn af einkaneyslu og fjárfestingu, ekki af útflutningi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands.

Bankinn gerir ráð fyrir að efnahagsbati hafi hafist á þriðja fjórðungi þessa árs með vexti landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram á lokafjórðungi ársins. „Gangi þetta eftir lýkur samdráttarskeiðinu á þriðja ársfjórðungi, eftir að hafa staðið í tvö og hálft ár,“ sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á kynningarfundi bankans í gær. Hann benti á að samdráttarskeiðið hér væri það lengsta meðal helstu iðnríkja. Spá bankans gerir ráð fyrir því að samdráttur á öðrum ársfjórðungi verði minni en ráð er fyrir gert í óendurskoðuðum tölum Hagstofu Íslands, 6,9 prósent í stað 8,4 prósenta.

Spáin er nokkurri óvissu háð og benti Þórarinn á að meðal þess sem hægt gæti á bata væri bakslag í alþjóðlegum efnahagsbata, dræmari aukning einkaneyslu vegna skuldsetningar heimila, frekari tafir í orkutengdum fjárfestingum og ef launahækkanir í komandi kjarasamningum yrðu umfram það sem samrýmdist verðstöðugleika. Hækkanir umfram 3,5 til 4,5 prósent sagði Þórarinn meiri en svo að samrýmdust stöðugleikanum. Þær myndu á endanum leiða til verðbólgu eða aukins atvinnuleysis.- óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×