Innlent

Kostnaður bankastofnana tæpir 70 milljarðar

Guðjón Rúnarsson segir viljayfirlýsinguna vera jákvætt skref sem ætti að hjálpa flestum
Guðjón Rúnarsson segir viljayfirlýsinguna vera jákvætt skref sem ætti að hjálpa flestum

Guðjón Rúnarsson, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja, segir viljayfirlýsingu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna vera jákvætt skref. „Þetta er mikilvægt skref sem ætti að hjálpa flestum," sagði Guðjón á blaðamannafundinum sem lauk fyrir stundu í Þjóðmenningarhúsinu.

Hann ítrekaði mikilvægi þess hversu breiður hópur kom að borðinu við gerð viljayfirlýsingarinnar en þarna voru saman komnir fulltrúar ríkisstjórnarinnar, lífeyrisjóða og bankamanna.

Áætlað er að aðgerðirnar kosti um 100 milljarða króna, þar af lenda um tveir þriðju hlutar kostnaðarins á bönkum og fjármálastofnunum og þriðjungur á lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði. Þannig lenda tæplega 70 milljarðar á bönkum og fjármálastofnunum, og ríflega 30 milljarðar á lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði.

Guðjón benti á að kortafyrirtæki og eignaleigur kæmu einnig að þeim lausnapakka sem nú hefur verið kynntur. Hann hvatti landsmenn ennfremur til að leita sjálfir eftir lausnum hjá umræddum fyrirtækjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×