Erlent

Herinn skaut á mótmælendur

Einn hermaður féll fyrir byssuskoti, að því er virðist úr byssu félaga síns. fréttablaðið/AP
Einn hermaður féll fyrir byssuskoti, að því er virðist úr byssu félaga síns. fréttablaðið/AP

Taíland, AP Til átaka kom milli hers og mótmælenda rétt fyrir utan Bangkok í gær. Herinn skaut bæði gúmmíkúlum og venjulegum byssukúlum á mótmælendur. Að minnsta kosti átján manns særðust og einn hermaður lést, varð að því er virðist fyrir skoti úr byssu félaga síns.

Meðan átökin stóðu sem hæst skutu hermennirnir á hóp annarra hermanna, sem komu akandi á móti þeim á vélhjólum. Að minnsta kosti fjögur vélhjólanna lentu í árekstri og einn hermaður var síðar borinn burt á börum með blæðandi sár á höfði.

Svo virtist sem þetta hafi gerst fyrir slysni, en vitað er til þess að hópar hermanna hafa sýnt mótmælendum stuðning.

Mótmælendurnir, sem eru rauðklæddir, hafa vikum saman staðið fyrir fjölmennum mótmælum í höfuðborginni og krefjast þess að Abhisit Vejjajiva forsætisráðherra og ríkisstjórn hans segi af sér.

Abhisit komst til valda í kjölfar valdaráns hersins. Hann hefur sagst vonast til þess að friðsamleg lausn finnist á deilunni, en hefur þó ekki lagt fram neinar hugmyndir að lausn eftir að upp úr viðræðum hans við mótmælendur slitnaði.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×