Lífið

Einstök barnasýning frumsýnd á laugardag

Sex hljóðfæraleikarar koma fram í sýningunni ásamt Sólveigu Simha.
Sex hljóðfæraleikarar koma fram í sýningunni ásamt Sólveigu Simha.
Á laugardaginn verður sýningin Herra Pottur og ungfrú Lok frumsýnd í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu. Þetta er listræn og fræðandi sýning sem miðar að þvi að kynna töfraheim sígildrar tónlistar og leikhússins fyrir börnum.

Þetta tónævintýri segir frá draumi lítils drengs um að áhöldin í eldhúsinu lifni við. Ástir herra Potts og ungfrúar Loks fara nánast út um þúfur vegna afbrýðisemi daðurdrósarinnar Kvarnar. Pörupilturinn Klútur og hinn reglufasti herra Sópur dragast inn í atburðarás sem erfitt er að sjá fyrir endann á. Tónlistin segir einnig sögu, en það er saga djass, tangó, charleston og foxtrott.

Sex hljóðfæraleikarar, að minnsta kosti jafnmargar brúður og sögukonan Sólveig Simha fylgja áhorfendum um þetta draumaland. Sýningin er bræðingur tónlistar eftir tékkneska tónskáldið Bohuslav Martinu frá 1927 og sögu franska leikhúsmannsins Christhophe Garda frá 2007.

Óperarctic-félagið er á bakvið uppfærsluna en hún er sú fyrsta sinnar tegundar. Ágústa Skúladóttir leikstýrir og Katrín Þorvaldsdóttir gerði búninga, brúður og sviðsmyndina.

Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík og eru sýningardagar 29. og 30. maí og 5. og 6. júní klukkan 13 og 15. Ein sýning er á frönsku 3. júní klukkan 17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.