Lífið

Fyrstu tónleikarnir í fjögur ár

Jóhann heldur tónleika í Hallgrímskirkju sem verða hans fyrstu í fjögur ár á Íslandi.
Jóhann heldur tónleika í Hallgrímskirkju sem verða hans fyrstu í fjögur ár á Íslandi.

Jóhann Jóhannsson heldur tónleika í Hallgrímskirkju 1. október í samstarfi við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, og 12 Tóna.  Þetta verða fyrstu tónleikar Jóhanns á Íslandi í fjögur ár en hann hefur verið að gera það gott á erlendri grundu að undanförnu. Jóhann verður ekki einn síns liðs á tónleikunum því hann mun hafa fimm manna hljómsveit sér til halds og trausts. Hana skipa þau Matthías Hemstock á slagverk, Una Sveinbjarnardóttir og Gréta Guðnadóttir á fiðlur, Guðmundur Kristmundsson á víólu og Hrafnkell Egilsson sellóleikari.

Á tónleikunum mun sveitin spila tónlist af þremur plötum Jóhanns: Englabörnum, Fordlandia og IBM 1401, a User"s Manual, í bland við nýtt efni sem enn hefur ekki komið út.

Þá mun Magnús Helgason jafnframt sýna kvikmyndir sem hann hefur gert sérstaklega við tónlistina en Magnús er yfirleitt með sveitinni þegar hún spilar erlendis. Kvikmyndir Magnúsar hafa ekki verið sýndar áður á Íslandi.

Síðasta hljómplata Jóhanns, And in the endless pause there came the sound of bees, kom út hjá 12 Tónum og í apríl síðastliðnum var hún gefin út um allan heim á vegum Type-útgáfunnar. Platan inniheldur tónlist úr kvikmyndinni Varmints sem hefur fengið fjölda verðlauna og var m.a. tilnefnd til BAFTA-verðlaunanna. Tónlistin sjálf hefur fengið verðlaun á kvikmyndahátíðum í Bandaríkjunum og Japan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.