Lífið

Söngvafléttur Schuberts í Fríkirkjunni

Tónlist Ágúst og Gerrit við æfingar í Fríkirkjunni á föstudag.fréttablaðið/Stefán
Tónlist Ágúst og Gerrit við æfingar í Fríkirkjunni á föstudag.fréttablaðið/Stefán

Ágúst Ólafsson barítónsöngvari, og Gerrit Schuil píanóleikari, ráðast næstu þrjá sunnudagsmorgna í það mikla og erfiða verk að flytja tvo frægustu ljóðasöngflokka Schuberts, Vetrarferðina og Malarastúlkuna, auk söngvasafns sem gefið var út að honum látnum undir heitinu Svanasöngur.

Hafa þeir unnið frá áramótum við æfingar á þessum perlum tónskáldsins sem eru meðal hans yndislegustu verka.

Ágúst segist vera kunnugur stökum sönglögum úr flokkunum frá fyrri tíð, bæði úr námi sínu og í meistaraklössum þar sem hann hefur unnið með sum lögin hjá ekki minni meisturum en Dieter Fischer Dieskau og Elisabeth Schwarzkopf.

Þrátt fyrir að Ágúst hafi á liðnum árum einbeitt sér meira að öðru en ljóðasöng var hann þó skólaður í þeim stranga skóla ljóðasöngsins í upphafi. Ekki er vitað til þess að tveir listamenn hafi lagt fyrir sig áður hér á landi að flytja þessi þrjú merku söfn ljóðasöngva Schuberts í runu, en einu sinni er allt fyrst.

Þeir hefja röðina á Malarastúlkunni fögru á morgun kl. 11., en Vetrarferðin er á dagskrá sunnudaginn 23. maí kl. 11 og Svanasöngur er fluttur sunnudaginn 30. maí kl. 11.

Hægt er að fá þrennutilboð á alla tónleikana en það fæst aðeins keypt hjá Listahátíð í miðasölusíma 552 8588 eða á skrifstofu Listahátíðar í Gimli Lækjargötu 3. Þá er tónleikagestum bent á að Iðnó býður upp á hádegishlaðborð eftir tónleikana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.