Erlent

Ísraelar og Palestínumenn ræðast aftur við

Óli Tynes skrifar
George Mitchell (th) og Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels.
George Mitchell (th) og Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels. Mynd/Bandaríska utanríkisráðuneytið

Óbeinar viðræður milli Ísraela og Palestínumanna hefjast að líkindum í næstu viku.

Arababandalagið hefur lagt blessun sína yfir viðræðurnar og Palestínumenn hafa staðfest að þeir hafi fengið loforð um að ekki verði unnið við umdeildar byggingaframkvæmdir í Austur-Jerúsalem.

George Mitchell sérlegur sendimaður Baracks Obama mun leiða viðræðurnar. Þær fara þannig fram að Mitchell ræðir við leiðtoga þjóðanna hvorn fyrir sig og ber svo skilaboð á milli.

Mahmoud Abbas forseti Palestínumanna mun svo fara til Washington síðar í þessum mánuði til viðræðna við Barack Obama forseta.

Abbas sagði í samtali við arabiskt dagblað að viðræðurnar muni standa í fjóra mánuði.

Hamas samtökin hafa þegar hafnað þessum viðræðum. Þau segja að samþykki Arababandalagsins sé aðeins samþykki fyrir því að ísraelar fremji frekari glæpi gegn palestinsku þjóðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×