Erlent

Ellefu fórust í sjálfsmorðssprengjuárás

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sprengjurnar sprungu með 20 mínútna millibili. Mynd/ AFP.
Sprengjurnar sprungu með 20 mínútna millibili. Mynd/ AFP.
Að minnsta kosti ellefu fórust í tveimur sjálfsmorðssprengjuárásum í bænum Kisljar á Kákasussvæðinu við Rússland í nótt. Meðal þeirra sem fórust voru sex lögreglumenn. Þjóðarsorg var í Rússlandi í gær vegna hryðjuverkanna í Moskvu í fyrradag.

Lögreglan segir í samtali við Itar-Tass fréttastofuna að þegar fyrsta sprengjan sprakk hafi lögreglumann verið nýbúnir að stöðva grunsamlegan bíl. En þegar bíllinn var stöðvaður sprengdi ökumaðurinn sprengjuna. Þegar lögreglumenn og aðra nærstadda dreif að til þess að aðstoða var önnur sprengja sprengd. Sá sem sprengdi þá sprengju var klæddur eins og lögregluþjónn.

Einungis tveir sólarhringar eru liðnir frá því að skæruliðar frá Kákasus sprengdu tvær sprengjur í neðanjarðarlestarstöðvum í Moskvu með þeim afleiðingum að 39 fórust. Gert er ráð fyrir að hluti þeirra verði borinn til grafar í dag.

Bærinn Kisljar er í lýðveldinu Dagestan, en þar hafa róttækir íslamistar staðið að baki blóðugum árásum í áraraðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×