Skoðun

Hve lengi tekur Ölfusá við?

Benedikt Jóhannsson skrifar

Opið bréf til Elvu Daggar Þórðardóttur, formanns framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar.

Sæl Elva

Sem gamall Sunnlendingur og unnandi Ölfusár hrökk ég við þegar þú kynntir nýlega áform bæjarstjórnar Árborgar um virkjun í Ölfusá rétt við Selfoss. Líklega eru fá dæmi um að stjórn sveitarfélags taki sjálf frumkvæði að því að höggva í sína stærstu náttúruperlu, en fá bæjarfélög hér á landi geta státað af slíkri náttúrufegurð í hjarta bæjarins, sem Ölfusá er. Tignarleg streymir hún undir brúna, sveipast í hringiðum fram hjá kirkjunni, veltur niður Selfossinn og rennur út í Sandvíkina.

Í þessu sambandi velti ég fyrir mér afstöðu Selfyssinga til árinnar, en bærinn heitir jú eftir fossi eða flúðum í ánni og sveitarfélagið Árborg er beinlínis kennt við ána. Lengi vel fór allt skólp á Selfossi og frárennsli frá iðnaði beint í ána innan bæjarmarka Selfoss. Eftir stofnun hins nýja sveitarfélags Árborgar, var hins vegar allt frárennsli leitt í einu stóru ræsi niður fyrir þéttbýlið á Selfossi út í Sandvíkina, sem er fyrir landi fyrrum Sandvíkurhrepps. Þessi framkvæmd var styrkt með tugum milljóna frá umhverfisráðuneytinu, sem vissi ekki betur en að frárennslið yrði hreinsað með viðeigandi hætti. Árborg fékk hins vegar undanþágu og frest að mig minnir til ársins 2009 til að fara að reglum og koma hreinsibúnaði á hina stóru skolplögn. Því hefur til skamms tíma mikil mengun verið í ánni við ræsið og fyrir neðan það. Áin lyktar jafnvel af skolpi vel yfir kílómetra fyrir neðan ræsið og klósettpappír, smokkar og dömubindi fljóta með straumnum.

Því spyr ég þig Elín. Finnst þér þessi meðferð á Ölfusá sæmandi fyrir Árborgarbúa og þá einkum Selfyssinga, sem hafa lagt metnað í að byggja upp fallegan og hreinlegan bæ? Hver er staðan nú varðandi hreinsibúnað fyrir skólpið og hvað hyggst Árborg gera á næstunni til að hreinsa frárennsli í ána með viðunandi hætti?

Fyrst bæjarstjórn Árborgar hefur áhuga á að framleiða orku langar mig einnig að benda á þann möguleika að framleiða rafmagn úr metani frá skólpinu sem nú rennur í ána, en fréttir hafa borist frá Hollandi um að þar sé verið að byggja orkuver sem framleiða rafmagn úr skít frá dýrum og fólki. Með slíkri orkuframleiðslu mætti með umhverfisvænum hætti afla tekna fyrir sveitarfélagið um leið og ánni er hlíft. Árborgarbúar gætu þannig vísað veginn fyrir önnur sveitarfélög í landinu. Reyndar er þegar hafin framleiðsla á metangasi úr kúamykju á sveitabæ skammt fyrir ofan Selfoss og geri ég ráð fyrir að sú mykja sé í grunninn ekki ólík þeirri mykju sem Selfyssingar gefa nú frá sér beint út í Ölfusá.




Skoðun

Sjá meira


×