Lífið

Pissaði í kattasandinn sex ára gamall

Gunnar Theódór afhendir Petrúnu Sigurðardóttur í Kattholti fyrsta eintakið af Köttum til varnar. Kettirnir virðast sjálfir áhugasamir. Fréttablaðið/GVA
Gunnar Theódór afhendir Petrúnu Sigurðardóttur í Kattholti fyrsta eintakið af Köttum til varnar. Kettirnir virðast sjálfir áhugasamir. Fréttablaðið/GVA
„Kveikjan að bókinni var reglugerð sem átti að setja um lausagöngu katta í Árborg í sumar. Ég sagði mína skoðun á þessu á Facebook og út frá henni kviknuðu mjög fjörlegar og eldfimar samræður sem bókin er byggð á," segir Gunnar Theódór Eggertsson, sem hefur sent frá sér bókina Köttum til varnar. Í henni er að finna samræður um ketti og dýrahald almennt í borgum og þá eru í formálanum nokkrar reynslusögur Gunnars af kattahaldi, eins og þegar hann pissaði í kattasandinn sex ára.

Gunnar ákvað að athuga hvort útgefandinn Jóhann Páll Valdimarsson hefði áhuga á að gefa út verkið en stjórnarformaður JPV-forlagsins er kötturinn Randver. Endurskoðandinn er af sama kyni og heitir Breki og Jóhann Páll situr síðan sjálfur í stjórn Kattholts. „Enda sagði ég við hann að það væri nánast heilög skylda hans að gefa bókina út," segir Gunnar, sem á engan kött um þessar mundir enda búsettur í París. Hins vegar eru foreldrar hans, þau Þórunn Valdimarsdóttir og Eggert Þór Bernharðsson, miklir kattaeigendur, raunar svo miklir að RÚV gerði frétt um kettina þeirra ellefu þegar Gunnar var sex ára.

Fréttir af illri meðferð á köttum rata reglulega á síður blaðanna og Gunnari fannst því tilvalið að afhenda forsvarsmönnum Kattholts fyrstu bókina, en allur ágóði af sölu bókarinnar rennur til styrktar athvarfsins. „Ég vissi að mér ætti eftir að bregða en ekki svona rosalega mikið. Það þarf að bæta aðstöðuna þarna verulega þannig að kettirnir geti farið út og fengið sér frískt loft," segir Gunnar.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.