Lífið

Hans klaufi í Elliðaárdalnum

Hans klaufi og nokkrar persónur í nýrri sýningu farandleikhópsins Lottu sem sýnir í sumar um allt land.
Hans klaufi og nokkrar persónur í nýrri sýningu farandleikhópsins Lottu sem sýnir í sumar um allt land.

Leikhópurinn Lotta frumsýndi fjölskylduleiksýninguna Hans klaufa í Elliðaárdalnum á laugardag. Þetta er fjórða sumarið sem Leikhópurinn Lotta tekur sig til og setur upp barnasýningu utandyra. Sumarið 2007 var hið sívinsæla verk Torbjörns Egner, Dýrin í Hálsaskógi, sett á svið, 2008 var það Galdrakarlinn í Oz í nýrri leikgerð Ármanns Guðmundssonar og síðasta sumar Rauðhetta eftir Snæbjörn Ragnarsson.

Verkið skrifaði Ljóti hálfvitinn Snæbjörn Ragnarsson en auk Hans klaufa koma við sögu aðrar þekktar persónur úr ævintýraheiminum. Þar má til dæmis nefna Öskubusku og froskaprinsinn. Verkið segir frá því þegar Aron prins og aðstoðarmaður hans, Hans klaufi, koma heim úr löngu ferðalagi. Þegar heim kemur komast þeir að því að ekki er allt með felldu. Norn hefur komið þangað í fjarveru þeirra, lagt álög á kóngsríkið og svæft alla þegna þess og til að bæta gráu ofan á svart breytir hún Aroni prins í frosk.

Nú eru góð ráð dýr og er það undir Hans klaufa komið að aflétta álögunum og bjarga kóngsríkinu. Verst bara hvað hann er mikill klaufi.

Hans klaufi hefur reyndar áður birst í sýningum Leikhópsins Lottu en það var síðasta sumar í verkinu Rauðhettu. Kom hann fram sem bróðir Grétu en þau systkinin voru send út í skóg af föður sínum þar sem þau síðar fundu sælgætishús og voru tekin til fanga af illgjarnri norn.

Í framhaldi af frumsýningunni mun Leikhópurinn Lotta ferðast um landið með Hans klaufa. Sýndar verða tæplega áttatíu á fleiri en fimmtíu stöðum um allt land. Miðaverð er 1.500 krónur Þetta er því ódýr fjölskylduskemmtun sem enginn má láta fram hjá sér fara. Næsta sýning verður í Kópavogi í dag kl. 18 og svo aftur í Elliðaárdalnum á morgun kl. 18. Á laugardag verður sýning í Hafnarfirði. Áhorfendum er bent á að klæða sig eftir veðri og taka með sér teppi til að sitja á. Þá eru allir hvattir til að hafa myndavél meðferðis því eftir sýningu fá börnin að spjalla við persónurnar úr leikritinu, skoða alla leikmyndina og kynnast þannig enn betur töfrum leikhússins.

Nánari upplýsingar um sýningarplan og nákvæmari leiðsögn að sýningarstöðum má finna á heimasíðu hópsins, leikhopurinnlotta.is, og á síðu hópsins á Facebook.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.