Lífið

Bach og Pärt

tónlist
Arvo Pärt tónskáld en Berlínar messa hans er flutt á morgun í langholtskirkju
mynd fréttablaðið
tónlist Arvo Pärt tónskáld en Berlínar messa hans er flutt á morgun í langholtskirkju mynd fréttablaðið

Sunnudaginn 16. maí kl. 20 flytja Kór og Kammersveit Langholtskirkju Berliner Messe eftir Arvo Pärt og Kantötu nr. 4, Christ lag in Todesbanden (Í dauðans böndum Drottinn lá), eftir J. S. Bach.

Tónskáldið Arvo Pärt (1935- ) er eitt virtasta tónskáld samtímans. Stíll hans er einstakur og þykir hafa yfir sér ójarðneskan blæ. Messan var samin 1993, upprunalega fyrir einsöngvara eða kór og orgel og hefur í því formi verið flutt hérlendis. Árið 2002 endurskoðaði tónskáldið messuna og útsetti fyrir strengjasveit og er þetta í fyrsta skipti að hún er flutt þannig hér.

Frá 1976 hefur Pärt þróað með sér stíl sem á sér enga hliðstæðu. Hann nefnir þessa tækni tintinnabuli (úr latínu: „litlar bjöllur"). Hann notar yfirtóna sem líkjast klukkuhlómi sem hverfast um miðlæga tóntegund. Með þessu nær tónlistin sterkum trúarlegum áhrifum.

Kantata Bachs nr. 4 er samin fyrir páskadag og er að öllum líkindum ein af fyrstu kantötum hans, að öllum líkindum samin um 1707. Hún er hrein kóralkantata í sjö þáttum. Hún hefst á sinfóníu og síðan notar hann sjö vers úr sálminum Í dauðans böndum Drottinn lá og útfærir fyrir fjórraddaðan kór, sópran/alt, tenór, bassa og sópran/tenór.

Á tónleikunum syngur kórinn alla þættina en stundum eru einsöngvarar látnir syngja aríur og dúetta. Konsertmeistari er Ingrid Karlsdóttir, stjórnandi Jón Stefánsson.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.