Innlent

Ætla að fækka ráðuneytum á næsta ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir lagði frumvarpið fram í gær.
Jóhanna Sigurðardóttir lagði frumvarpið fram í gær.
Frumvarp um að fækka ráðuneytum úr tólf í níu var lagt fram á Alþingi í gær. Það var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sem lagði frumvarpið fram, en gert er ráð fyrir að lögin taki gildi á næsta ári.

Iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið munu sameinast í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið munu sameinast í velferðarráðuneyti. Þá mun dómsmála- og mannréttindaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið verða sameinuð í innanríkisráðuneyti. Umhverfisráðuneytið mun svo verða að umhverfis- og auðlindaráðuneyti, en auðlindamál heyra núna undir iðnaðarráðuneytið.

Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að markmiðið sé að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að breytingarnar geti leitt til um 360 milljóna króna lækkunar á kostnaði á ári þegar áhrif þess eru að fullu komin fram, auk lækkunar á húsnæðiskostnaði og öðrum kostnaði vegna samlegðaráhrifa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×