Innlent

Kæra tefur framkvæmdir við Búðarháls

Frá blaðamannafundi Landsvirkjunar 10. febrúar í vetur þegar tilkynnt var að undirbúningsframkvæmdir færu af stað í vor. Mynd/Pjetur
Frá blaðamannafundi Landsvirkjunar 10. febrúar í vetur þegar tilkynnt var að undirbúningsframkvæmdir færu af stað í vor. Mynd/Pjetur
Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, sem mikilvægt þótti að vinna í sumar, tefjast vegna niðurstöðu kærunefndar og hefjast í fyrsta lagi í haust. Niðurstaðan er vonbrigði fyrir Landsvirkjun, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Kærunefnd útboðsmála birti í gær úrskurð í kærumáli Verktakafélagsins Glaums ehf. og Árna Helgasonar ehf. gegn Landsvirkjun. Tildrög málsins eru þau að með kæru dagsettri 21. apríl 2010 kærði Verktakafélagið Glaumur ehf. og Árni Helgason ehf. synjun Landsvirkjunar á tilboði fyrirtækjanna í upphafsverk Búðarhálsvirkjunar, en fyrirtækin tvö voru saman lægstbjóðandi í verkið. Landsvirkjun synjaði lægstbjóðanda á grundvelli þess að fyrirtækin tvö uppfylltu ekki skilyrði útboðsgagna um hæfni. Alls voru bjóðendur í verkið sjö.

Í kæru verktakafyrirtækjanna var meðal annars gerð sú krafa að útboð Landsvirkjunar yrði ógilt á grundvelli þess að bjóða hefði átt verkið út á evrópska efnahagssvæðinu. Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að megin niðurstaða kærunefndar sé sú að fallist var á þá kröfu kæranda að auglýsa hefði átt útboðsverkið á evrópska efnahagssvæðinu.

„Niðurstaða úrskurðarins er vonbrigði fyrir Landsvirkjun, þar sem hún hefur í för með sér að umtalsverðar tafir verða á upphafi framkvæmda við Búðarhálsvirkjun. Líklegt er í ljósi úrskurðarins og þess tíma sem útboðsferli innan evrópska efnahagssvæðisins tekur að framkvæmdir við Búðarháls hefjist í fyrsta lagi á haustmánuðum þessa árs."


Tengdar fréttir

Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun ekki enn hafnar

Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, sem mikilvægt þótti að vinna í sumar, hafa enn ekki hafist vegna ágreinings Landsvirkjunar og lægstbjóðanda og gæti svo farið að verkið tefðist um heilt ár. Þá hefur Landsvirkjun enn ekki tekist að fjármagna verkið í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×