Innlent

Mótmæla aðgerðum ríkisstjórnarinnar

Öryrkjabandalagið stóð fyrir táknrænni athöfn við Alþingishúsið í janúar þegar formaðurinn, Guðmundur Magnússon, lagði blómakrans á tröppur þinghússins. Guðmundur sagði þá að niðurbrot velferðarkerfisins væri hafið.
Öryrkjabandalagið stóð fyrir táknrænni athöfn við Alþingishúsið í janúar þegar formaðurinn, Guðmundur Magnússon, lagði blómakrans á tröppur þinghússins. Guðmundur sagði þá að niðurbrot velferðarkerfisins væri hafið. Mynd/Valgarður Gíslason
Framkvæmdastjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir fyrirhuguðum skerðingum á þjónustu við fatlaða og lífsafkomu öryrkja. Stjórnin býður ríkisstjórninni aðstoð við að forgangsraða við fjárlagagerð næsta árs með jafnrétti og mannréttindi að leiðarljósi og þannig að koma megi í veg fyrir frekari skerðingar í velferðarkerfinu.

Í ályktun framkvæmdastjórnarinnar segir lífeyrisþegar hafi fyrstir fengið skell við upphaf bankakreppunnar. Með aftengingu laga sem áttu að tryggja lífeyri samkvæmt launa- eða neyslu-vísitölu varð meirihluti lífeyrisþega fyrir um 10% skerðingum á lífeyri 1. janúar 2009, að því er fram kemur í ályktuninni.

„Stór skellur kom svo 1. júlí sama ár þegar tekjutengingar almannatrygginga jukust og komu fyrr og harkalegar en áður, en ráðherra lýsti yfir að „betra væri að fá stóran skell í upphafi og vera síðan frír næstu þrjú ár". Þrátt fyrir það hefur síðastliðið ár markast af stöðugum hækkunum á lyfja- og lækniskostnaði og aukinni greiðsluþátttöku í sjúkra-, iðju- og talþjálfun auk hjálpartækja."

Þá voru lífeyrisgreiðslur frystar 1. janúar út árið 2010 og enn jókst greiðsluþátttaka sjúklinga og öryrkja í heilbrigðiskerfinu, að mati framkvæmdastjórnarinnar. „Þá hafa lífeyrissjóðirnir skert sínar greiðslur gagnvart öryrkjum á undanförnum árum sem hefur skert framfærslu þeirra harkalega og hefur einnig haft aukinn kostnað ríkisins í för með sér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×