Skoðun

Svartir svanir

Vilhjálmur Ari Arason skrifar

18. nóvember er Evrópudagur til áréttingar um rétta notkun sýklalyfja og áminningar um vaxandi sýklalyfjaónæmi. Mikill skilningur hefur áunnist í þýðingu sýklalyfjaónæmis tengt mikill sýklalyfjanotkun í þjóðfélaginu, ekki síst hér á landi þar sem ástandið er orðið grafalvarlegt.

Sýklalyfin hafa verið notuð óspart á vesturlöndum og nú nálgumt við óðfluga þann tíma sem var fyrir tilkomu lyfjanna. Lyf sem voru talin kraftaverkalyf og bættu a.m.k. 10 árum við meðalaldur manna í hinum vestræna heimi þegar þau komu fyrst á markað fyrir um 70 árum síðan. Lyf sem voru talin öflugasta vopn lækna í baráttunni gegn alvarlegum sýkingum á borð við lungnabólgu þar sem dánartíðnin var upp undir 30%.

Til að byrja með var vandamálið mest bundið við spítalasýkingar og sem dagurinn í ár er einkum tileinkaður að þessu sinni. Á seinni árum er vandamálið þó ekkert síður bundið við notkun sýklalyfja út í þjóðfélaginu sjálfu.

Hvað ef við nú sæjum afleiðingarnar betur úti í sjálfri náttúrunni? Við höfum miklar áhyggjur á yfirgangi lúpínunnar á gróðurfar landsins á sumrin þegar allt er í blóma og hvað ef allir svanir á Íslandi væru svartir eins og sá sem heimsótti okkur hér um árið? En því miður er bakteríuflóran í okkur og á ekki eins sýnileg með berum augum, en hún er engu að síður til staðar. Tengsl sýklalyfjanotkunar og útbreiðslu sýklalyfjaónæmra stofna meðal barna má meðal annars sjá í rannsóknum sem gerðar hafa verið hér á landi á undanförnum árum.

Alvarlegast er aukin útbreiðsla fjölónæmra sýkingarvalda eins og berklabakteríunnar þar sem þær sýkingar eru landlægar og svo lungnabólgubakteríunnar hér á landi, svokallaðs pneumókokks sem m.a. veldur flestum alvarlegum eyrnabólgusýkingum barna. Þarna sköpum við okkur algjöra sérstöðu meðal norrænna þjóða og mætti halda að vandamálið væri heilbrigðisyfirvöldum sem dulin ráðgáta.

Á Íslandi endurspeglast ómarkviss sýklalyfjanotkun mest og best tengt algengustu meinum barnanna okkar, efri loftvegasýkingum, sem oftast eru vegna veirusýkinga og vægra fylgisýkinga þeim tengdum en þar eru eyrnabólgurnar algengastar. Upp undir helmingur allra koma barna til lækna er vegna eyrnabólgu og vandamála þeim tengdum. Meirihluti þeirra barna sem koma til læknis með bráða miðeyrnabólgu hafa fengið sýklalyf við þessum vanda þrátt fyrir að Alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar ráðleggi annað og sem gera frekar ráð fyrir verkjastillingu, eftirfylgni og fræðslu enda læknast flestar eyrnabólgurnar af sjálfu sér.

Afleiðingarnar er mikið meira sýklalyfjaónæmi algengustu sýkingarvaldanna og jafnvel meiri sýkingartilhneying hjá börnum en í nágranalöndunum. Leiða má því líkum að eyrnabólgubörnin á Íslandi sé að hluta heimatilbúið vandamál en hvergi í heiminum eru fleiri börn sem þurfa að fá hljóðhimnurör eða allt að þriðjungur.

Mikið erfiðara er líka orðið að meðhöndla erfiðar og alvarlegar sýkingar sem pneumókokkarnir geta valdið. Upp undir 40% af pneumókokkastofnum er með ónæmi fyrir penicillíni og helstu varalyfjum svo að ráðleggja verður oft strax hæstu leyfilegu skammta af penicíllini ef meðhöndla þarf t.d. alvarlega eyrnabólgu hjá barni, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem ástandið er hvað verst. Vaxandi fjölda barna þarf engu að síður að leggjast inn á spítala til að fá sterkustu lyf sem völ er á í æð eða vöðva þar sem inntaka um munn dugar ekki. Staða sem margar nágranaþjóðir okkar gapa af undrun yfir. Landslagið eða réttara sagt flóran er þannig gjörbreytt frá því fyrir nokkrum áratugum síðan þegar flest sýklalyf virkuð vel.

Vegna tíðra eyrnabólgu hjá börnum og sýklalyfjaónæmis pneumókokka sem jafnframt geta valdið alvarlegum sýkingum er talið brýnt að grípa nú til bólusetningar gegn helstu (algengustu) stofnunum. Hætt er við að aðrir sýklalyfjaónæmir stofnar komi í stað þeirra sem bólusett er gegn með tímanum ef ekki verður dregið verulega úr sýklalyfjanotkuninni. Við megum því ekki fara úr öskunni í eldinn og verðum á sama tíma og við byrjum að bólusetja börnin að minnka ómarkvissa sýklalyfjanotkun í þjóðfélaginu öllu.

Mikið hefur vantað upp á góðan skilning á öllum þessum málum sl. áratugi hér á landi. Náttúrufræðistofnun hefur því miður ekki haft skoðun á málinu enda ekki á hennar könnu að fylgjast með flóru landans og barnanna okkar. Það verkefni heyrir undir Heilbrigðisráðuneytið sem ber ábyrgð á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og sem hefur falið sóttvarnarlækni að fylgjast með þróun mála. Þó voru samdar klínískar leiðbeiningar Landlæknis um meðferð eyrnabólgu barna á síðasta ári og náið er fylgst með sýklalyfjaónæminu á Sýklafræðideild LSH.

Það sorglega er að vitað hefur verið um vandann í tæpl. tvo áratugi og hvert hefur stefnt í þessum efnum. Sýklalyfjanotkunin er samt meiri en fyrir um áratug síðan þótt aðeins hafi dregið úr henni á allra síðustu árum hjá yngstu börnunum. Er það ekki síst foreldrum að þakka sem sýnt hafa vandamálinu aukinn skilning. Allt að þrefaldur munur á sýklalyfjanotkun eftir búsetu talar samt sínu máli og í fyrra var hún t.d. rúmlega þriðjungi meiri í Reykjavík en í höfuðborg norðurlands, Akureyri.

Eitt af heilögustu markmiðum læknisfræðinnar er að gera aldrei meira ógagn en gagn. Spurningar vakna hvort við höfum verið heilbrigðissóðar og hvað við ætlum þá að gera í þeim efnum? Eða er veruleikinn það flókinn og ofvaxin skilningi okkar að við ráðum ekki við hann? Nei, við skulum horfa framm á veginn og til nærumhverfisins okkar og vona að svanurinn svarti hafi aðeins verið hvítur svanur í álögum.




Skoðun

Sjá meira


×