Handbolti

Andstæðingur dagsins á EM: Serbía

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Momir Ilic.
Momir Ilic.
Vísir fjallar um andstæðinga Íslands í riðlakeppni Evrópumeistaramótsins í handbolta. Í dag mætir Ísland liði Serbíu í fyrstu umferð riðlakeppninnar. Leikurinn hefst klukkan 19.15 í kvöld.

Hér fyrir neðan gefur að líta yfirlit yfir árangur liðsins á stórmótum í handbolta undanfarinn áratug. Þá er einnig rætt við Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara um hans álit á andstæðingi dagsins, lykilmanni þess, þjálfara og hvað beri sérstaklega að varast.

„Serbar hafa verið að spila nokkuð fjölbreytilegan varnarleik," segir Guðmundur. „Annars hafa þeir verið að spila framliggjandi vörn, svokallaða 3-2-1 vörn sem hefur alltaf verið þeirra aðall. Þeir geta einnig spilað 6-0 vörn og líka beitt öðru varnarafbrigði sem heitir 4-2. Þeir geta því verið nokkuð óútreiknanlegir hvað varnarleikinn varðar."

„En það ber einnig að hafa í huga að þeir eru mjög líkamlega sterkir og almennt með mjög öflugt lið. Það er enginn vafi á því enda hafa úrslitin í æfingaleikjum liðsins fyrir mótið sýnt það."

Árangur undanfarinna tíu ára:

EM 2008: Komust ekki í lokakeppnina.

OL 2008: Komust ekki á leikana.

HM 2009: 8. sæti

Árangur sameinaðs liðs Serbíu og Svartfjallalands (keppti einnig undir merkjum Júgóslavíu):

EM 2000: Komst ekki í lokakeppnina.

ÓL 2000: 4. sæti

HM 2001: 3. sæti

EM 2002: 10. sæti

HM 2003: 8. sæti

EM 2004: 8. sæti

ÓL 2004: Komust ekki á leikana.

HM 2005: 5. sæti

EM 2006: 9. sæti

HM 2007: Komst ekki í lokakeppnina.

Innbyrðisviðureignir Íslands og Serbíu á stórmótum síðasta áratug:

HM 2001: Ísland - Júgóslavía 27-31 (tap)

- í 16-liða úrslitum

EM 2002: Ísland - Júgóslavía 34-26 (sigur)

- í milliriðlakeppni

HM 2003: Ísland - Júgóslavía 32-27 (sigur)

- leikur um 7. sæti

EM 2006: Ísland - Serbía & Svartfjallaland 36-31 (sigur)

- riðlakeppni

Þjálfari: Sead Hasanefendic (einnig þjálfari Gummersbach í Þýskalandi).

Guðmundur um Hasanefendic:

„Hann náði mjög góðum árangri þegar hann var þjálfari Túnis þegar HM fór fram þar í landi árið 2005. Hann er mjög reyndur og prýðisgóður þjálfari. Hann er líka nýr þjálfari hjá liðinu og það mun gera leikmenn enn grimmari ef eitthvað er."

Lykilmaður: Momir Ilic, Kiel

„Ilic er þeirra stærsta stjarna en þeir eru með nokkuð jafnt lið. Þeir eru til að mynda með mjög sterkan miðjumann sem heitir Andelkovic og einnig afar góðan línumann. En Ilic er þeirra þekktasti leikmaður - hann er frábær skytta og ekki síður góður varnarmaður líka," segir Guðmundur.

Hvað ber að varast:

„Það er erfitt að nefna eitthvað sérstakt sem ber að varast. Það er góður heildarbragur á liðinu og við þurfum að spila vel bæði í vörn og sókn til að eiga möguleika gegn þeim. Það verður erfitt að takast á við línumanninn þeirra enda eru þeir duglegir að gefa inn á hann í sóknarleik sínum. Við þurfum að vera spila mjög sterkan varnarleik enda spila þeir fjölbreyttari varnarleik en oft áður," segir Guðmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×