Handbolti

Ótrúlegir yfirburðir Norðmanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Katrine Lunde Haraldsen er hér fagnað af félögum sínum í norska landsliðinu eftir leikinn í gær.
Katrine Lunde Haraldsen er hér fagnað af félögum sínum í norska landsliðinu eftir leikinn í gær. Nordic Photos / AFP
Norska landsliðið vann sinn riðil á EM í handbolta með ótrúlegum yfirburðum og var samtals með 48 mörk í plús í leikjunum þremur í riðlinum.

Norðmenn byrjuðu á því að vinna Frakka, sem komust í úrslit HM í fyrra, með ellefu marka mun og svo fóru þeir afskaplega létt með Slóvena, 32-16.

Ungverjaland var síðasti mótherjinn og er gamalt stórveldi í kvennahandbolta. En Norðmenn völtuðu yfir Ungverja í gær og unnu með 21 marki, 34-13.

Katrine Lunde Haraldsen varði tvöfalt fleiri skot en Ungverjar skoruðu í leiknum og var því með 67 prósenta hlutfallsmarkvörslu. Ótrúlegar tölur sem bera vitni um hversu gríðarlega sterk norska vörnin er.

Haraldsen var eðlilega valinn maður leiksins en hún varði tvö af fjórum vítum og í tveimur af fimm hraðaupphlaupum Ungverja. Hún varði svo sautján skot í nítján tilraunum Ungverja af níu metrunum.

Norðmenn hafa unnið EM í síðustu þrjú skipti og virðist fátt geta stöðvað þær nú. Þær fara nú með fullt hús stiga í milliriðlakeppnina þar sem Noregur mætir næst liðum Svíþjóðar, Hollands og Úkraínu.

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson er landsliðsþjálfari Noregs eins og kunnugt er.

Staðan í milliriðli 2:

1. Noregur 4 stig (+32 í markatölu)

2. Svíþjóð 4 (+15)

3. Holland 2 (+5)

4. Ungverjaland 2 (-18)

5. Frakkland 0 (-14)

6. Úkraína 0 (-20)

Liðin taka aðeins með sér í milliriðlana árangurinn gegn öðrum liðum sem þangað komust. Þýskaland (C-riðill) og Slóvenía (D-riðill) urðu neðst í sínum riðlum og eru því úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×