Handbolti

Logi: Nagaði neglurnar á bekknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Logi og Óskar Bjarni fá sér kaffibolla á hóteli liðsins í dag.
Logi og Óskar Bjarni fá sér kaffibolla á hóteli liðsins í dag. Mynd/E. Stefán

Logi Geirsson segir að það hafi verið erfitt fyrir sig að sitja og horfa upp á liðsfélaga sína í íslenska landsliðinu kasta frá sér sigrinum á lokamínútum leiksins gegn Serbíu í gær.

„Ég hef sjaldan verið jafn upptjúnaður á bekknum. Venjulega er ég mjög rólegur þegar ég sit þar. En í gær var ég byrjaður að naga neglurnar í fyrsta skipti á ævinni,“ sagði Logi við Vísi í dag.

„Þetta var mikill spennuleikur enda var spennan búin að safnast upp í heilt ár. Það er því ekki óalgengt að svona lagað geti gerst í fyrsta leik.“

„En við erum núna búnir að fara yfir leikinn í gær og það er komin gleði í mannskapinn á ný.“

Logi sagði þó að leikmenn hefðu verið afar ósáttir þegar þeir komu upp á hótel eftir leikinn í gær.

„Helst vildu menn fara aftur í stuttbuxurnar og spila gegn Austurríki strax. Menn voru brjálaðir.“

Hann fagnar því þó að liðið fái frídag í dag og að það verði einnig frídagur fyrir síðasta leik riðilsins, gegn Dönum á laugardaginn.

„Við erum lið sem leggur mikla áherslu á undirbúninginn. Þessi tími skiptir einnig miklu máli ef menn eru í meðferð hjá sjúkraþjálfara.“

„En ég er klár í slaginn þó svo að ég hafi ekkert spilað í gær. Ég verð líka betri með hverjum degi og hverri æfingu. Gummi [Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari] gerði mér grein fyrir því að ég muni spila minna hlutverk með liðinu en oft áður enda búinn að vera lengi frá vegna meiðsla. Við eigum líka nóg af leikmönnum sem geta leyst allar stöður inn á vellinum og ég er bara hluti af þeirri held," sagði Logi og bætti við að endingu.

„Ég nýti bara þau tækifæri sem ég fæ og tek Stockton á þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×