Innlent

Hæsta bensínverðið á Ísafirði - Gríðarlegur munur á milli landshluta

Bensínstöð. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Bensínstöð. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.

Alls munar tólf og hálfri krónu á hæsta bensínverði á landinu og því lægsta. Hæsta bensínverðið er að finna á Ísafirði en samkvæmt heimasíðunni GSM bensín þá er bensínverð þar 198,70 krónur. Allnokkurt verðstríð er að eiga sér stað á Suðurlandi sem gerir það að verkum að bensínlítrinn er ódýrastur þar, eða  186.20 krónur.

Framkvæmdarstjóri Félags íslenskra bifreiðaeiganda (FÍB), Runólfur Ólafsson, segir engar sjáanlegar ástæður fyrir því að verðið sé hærra á Ísafirði en annarstaðar.

Spurður hvort inn í þetta spili flutningskostnaður segist hann eiga erfitt með að sjá það.

„Til að mynda kostar eldsneytið í Vestmannaeyjum 186,20 krónur," segir Runólfur en þar má finna eitt lægsta bensínverðið á Íslandi í dag.

Runólfur segir mjög jákvæða samkeppni eiga sér stað þessa dagana. Tekur hann sem dæmi nýtt útspil Orkunnar um verðvernd. Það átak hófst í gær.

Önnur olíufélög hafa ekki látið sitt eftir liggja og eru komnir í bullandi samkeppni, í það minnsta á Suðurlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×