Skoðun

Bútasaumur og bensínstöðvar

Ragnar Sverrisson skrifar
Við sem stóðum fyrir átakinu Akureyri í öndvegi töldum miklu skipta að heildarbragur yrði á frekari uppbyggingu í miðbænum og samræmis gætt þannig að hann myndaði vistvæna heild frá Samkomuhúsinu og norður fyrir íþróttavöllinn. Með þessu yrði vikið frá því fyrirkomulagi sem hafði ríkt og oft líkt við bútasaum og felst í því að drita niður ósamstæðum byggingum hér og þar - allt eftir hagsmunum einstakra verktaka, einstaklinga eða fyrirtækja.

Það er hinsvegar á könnu og á ábyrgð bæjaryfirvalda að gæta heildarsýnar og tryggja að ákvarðanir um byggingar á tilteknum stöðum og aðrar framkvæmdir falli vel að fyrirfram ákveðinni stefnu eins og þeirri sem hið fjölmenna íbúaþing á Akureyri árið 2004 óskaði eftir: Að miðbærinn yrði skjólsæll og bjartur, hús ekki hærri en þau sem fyrir væru og íbúðum fjölgað þar svo úr yrði líflegur vettvangur atvinnu og mannlífs. Þannig voru mótaðar meginlínur sem íbúarnir óskuðu að lagðar væru til grundvallar í nýju heildarskipulagi miðbæjarins. Í arkitektasamkeppni og vandaðri vinnu sérstaks starfshóps sem fram fór í kjölfarið var tekið tillit til þessara óska.

Nú liggur fyrir til afgreiðslu í bæjarstjórn nýtt deiliskipulag miðbæjarins sem byggir á þessari sýn. En nú virðist eins og ný bæjarstjórn hafi vikið af þessari leið og leitt bútasaumsaðferðina aftur til öndvegis með tilheyrandi hrossakaupum.

Bensínstöðvum skal fjölgað!Á síðasta bæjarstjórnarfundi var samþykkt að auglýsa nýtt deiliskipulag á reitnum fyrir norðan og neðan Samkomuhúsið. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að þar verði sett á laggirnar enn ein bensínstöðin. Þó eru nægar slíkar í bænum og raunar fleiri á hvern íbúa en fyrir finnast á byggðu bóli. Auk þessarar bensínstöðvar er gert ráð fyrir veitingastað á blettinum í amerískum stíl með tilheyrandi auglýsingamennsku, bílaumferð og skarkala. Dæmigerð bútalausn sem að auki er ekki í neinu samræmi við niðurstöðu íbúaþings að haga skipulaginu á þann veg að miðbærinn laði til sín fleiri íbúa. Lögð var áhersla á að slík byggð yrði í útjaðri miðbæjarins en veitingarekstur og önnur atvinnustarfsemi nær miðjunni eða þá annarsstaðar í bæjarlandinu. Þar eru margir og góðir valkostir. En nú þarf nauðsynlega að fjölga bensínstöðvum því auk þessarar er verið að gefa leyfi fyrir enn annarri á Glerártorgi enda heilir 100 metrar í þá næstu! Um það virðist bæjarstjórnin sammála að sé hið mesta nauðsynjamál!



Viljum við þetta?Bútasaumur í skipulagi borga og bæja er kjörland þeirra sem vilja fara sínu fram án heildarsýnar. Hefst þá hið dapurlega bögglauppboð á lóðum og lendum þar sem auðna ræður för en skipulegri hugsun er ýtt til hliðar. Í mörgum bæjarfélögum hefur verið kvartað undan slíkum vinnubrögðum og því haldið fram að aðrir en stjórnir þeirra ráði í raun meiru um skipulagið enda þótt bæjarstjórnir beri ábyrgð á þeim málaflokki. Þá ríður einmitt á að hafa heildarsýn og mótaða stefnu. Það ágæta fólk sem nú hefur tekið við stjórn Akureyrar er ekki þekkt fyrir að hafa hana en frekar talað almennt um einstök málefni, forðast að setja fram mótaðar skoðanir og enn síður hvernig þau hyggjast fylgja þeim eftir. Þau verða því ekki hönkuð á að hafa ekki gert það sem þau vildu stefna að þar sem engin var stefnan. Þess vegna er ástæða til að óttast að í hönd fari blómatími þeirra sem unna ómarkvissum vinnubrögðum við frekari uppbyggingu bæjarins. Fyrsta verk nýrrar bæjarstjórnar bendir því miður til að bútasaumsaðferðin hafi verið leidd til öndvegis og hún síðan skreytt með bensínstöðvum hvar sem unnt er að pota þeim niður í bæjarlandinu. Það er að mínum dómi ógæfuleg stefna og til marks um að til valda sé komið fólk sem hefur ekki tileinkað sér heildarsýn um málaflokka eins og skipulagsmál og sé því berskjaldað gagnvart ásókn sérhagsmunahópa.






Skoðun

Sjá meira


×