Handbolti

Snorri: Töpuðum fyrir betra liði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Mynd/DIENER
Snorri Steinn Guðjónsson sagði að Ísland hefði í dag tapað fyrir betra liði er það mætti Frökkum í undanúrslitum EM í handbolta í Austurríki.

Frakkar unnu leikinn, 36-28, og mæta annað hvort Póllandi eða Króatíu í úrslitaleiknum á morgun.

„Frakkar voru bara betri í dag og við töpuðum fyrir betra liði. Við verðum bara að játa það," sagði Snorri Steinn við Vísi eftir leikinn.

„Þeir unnu okkur með átta marka mun. Það segir og það segir alla söguna."

„Það var slæm byrjun í seinni hálfleik sem gerði út af við okkur. Munurinn á milli liðanna var allt of mikill og það er ekki hægt að vinna upp svo stórt forskot á Frakka. Við vorum í raun skrefinu á eftir á mörgum vígstöðum."

Hann segir að sóknarleikurinn hafi ekki gengið það illa.

„Við vorum í raun að fá þær opnanir í vörn Frakka sem við vildum. Við skoruðum 28 mörk sem er allt í lagi."

„En við gerðum aftur á móti allt of mikið af tæknilegum mistökum og þetta var bara ekki góður leikur þegar á heildina er litið. Við hefðum getað gert mun betur."

Ísland hóf síðari hálfleikinn mjög illa og Snorri segir að það hafi margt farið úrskeiðis þá.

„Sóknarleikurinn gekk illa, vörnin datt niður og þeir gengu bara á lagið. Frakkar eru fljótir að nýta sér slæman leikkafla hjá liðunum og refsa fyrir hver einustu mistök sem andstæðingurinn gerir."

„Það er varla hægt að benda á neitt ákveðið. Þetta var bara eltingaleikur sem við áttum ekki séns í."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×