Handbolti

Onesta: Einn okkar besti leikur í keppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Frakkarnir fagna hér sigri á Íslendingum.
Frakkarnir fagna hér sigri á Íslendingum. Mynd/DIENER
Claude Onesta, landsliðsþjálfari Frakka, sagði að það hefði verið mjög erfitt að vinna lið Íslands í dag.

Liðin mættust í undanúrslitum EM í handbolta, 36-28, í Vínarborg í dag. Frakkar mæta annað hvort Króötum eða Pólverjum í úrslitum.

„Þetta var mjög góður leikur hjá okkur og einn sá besti í keppninni til þessa. Við stóðum okkur mun betur í kvöld en í fyrsta leik mótsins," sagði Onesta á blaðamannafundi eftir leik.

„En það var mjög erfitt að vinna Ísland og við vissum að við myndum þurfa að spila mjög góða vörn til að vinna þá."

„Okkur tókst að gera þeim erfitt fyrir í sóknarleiknum og fengum upp úr því hraðaupphlaup og mörk."

Hann sagðist ekki eiga sér óskamótherja í úrslitaleiknum. „Alls ekki. Það skiptir ekki máli enda eru bæði liðin mjög sterk."

Guillaume Junillon sagði að góður varnarleikur hafi verið lykillinn að sigri Frakka í kvöld. Hann skoraði sex mörk í leiknum, öll úr víti.

„Það var vörnin sem skipti öllu máli hér í þessum leik. Hún gekk ekki nógu vel í fyrri hálfleik en var mun betri í þeim síðari," sagði hann.

Franck Junillon skoraði tvö mörk í kvöld og hann sagði að frönsku leikmennirnir væru mjög ánægðir með sigurinn á Íslandi.

„Við vissum að þetta yrði mjög erfiður leikur og mér fannst Ísland spila mjög vel í fyrri hálfleik."

„En vörnin gekk vel og þá fengum við mörg mörk úr hraðaupphlaupum. Það hefur verið mjög erfitt að komast í úrslit á þessu móti en það tókst."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×