Lífið

Eva Vestmann sigraði hönnunarsamkeppni SonyMusic

Eva Vestmann, nemandi í grafískri hönnun við Central St. Martins, sigraði í hönnunarkeppni á vegum SonyMusic.
Eva Vestmann, nemandi í grafískri hönnun við Central St. Martins, sigraði í hönnunarkeppni á vegum SonyMusic.

Eva Vestmann stundar BA-nám í grafískri hönnun við Central St. Martins-skólann í London. Hún sigraði nýverið í hönnunarkeppni á vegum SonyMusic þar sem nemendur skólans hönnuðu veggverk í nýtt skrifstofuhúsnæði fyrirtækisins. Eva er að ljúka fyrsta skólaári sínu við Central St. Martins og segir hún námið bæði skemmtilegt og krefjandi, enda sé skólinn einn sá virtasti í Evrópu. Áður stundaði hún nám í almennri hönnun við Tækniskólann í Reykjavík auk þess sem hún lærði ljósmyndun í Ljósmyndaskóla Sissu.

„Skólinn vinnur náið með ýmsum fyrirtækjum þar sem fyrirtækin efna gjarnan til samkeppni um ýmis verkefni, líkt og SonyMusic gerði. Nemendur verða þó að vinna verkið utan skóla en sigurvegarinn fær pening að launum sem kemur sér auðvitað mjög vel fyrir blankan námsmann," útskýrir Eva. Hún segir SonyMusic hafa óskað eftir veggverki sem fjallaði á einhvern hátt um sögu fyrirtækisins, en það hefur verið starfrækt allt frá árinu 1889.

„Ég ákvað að nota tilvitnanir frá ýmsum listamönnum sem höfðu verið á mála hjá fyrirtækinu í gegnum tíðina svo úr varð stórt textaverk, þessu blandaði ég svo saman við skuggamyndir af listamönnunum. Skuggamyndirnar eru inni í litríkum hringjum, en ég tengi hringformið einmitt mikið við tónlist þar sem vínyl- og geislaplötur eru hringlaga. Textarnir sem ég styðst við eru ekki lagatextar heldur tilvitnanir sem listamennirnir hafa látið falla við ýmis tækifæri þannig það fór mikil rannsóknarvinna í þetta verkefni," segir Eva, en hún tók tilvitnanir frá tónlistarmönnum á borð við Frank Sinatra, Elvis Presley, Bruce Springsteen og Keshu. Að sögn Evu er stutt síðan úrslitin voru tilkynnt og því er enn ekki búið að setja verkið upp og veit hún ekki með vissu hvenær það verður gert.

Eva hyggst dvelja í London næstu tvö árin en segir framtíðina enn óráðna, hana langi þó mikið í framhaldsnám. „Þetta á allt eftir að koma betur í ljós. Maður vill ekki útiloka neitt," segir hún að lokum. -sm

Hér er svæði Evu á YouTube þar sem sjá má hreyfimyndir eftir hana.

Eva heldur einnig úti ágætis bloggsíðu þar sem hún sýnir verk sín og ljósmyndir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.