Skoðun

Stjórnarskrá Íslands

Einar Guðmundsson skrifar

Sem borgari þessa lands og sem frambjóðandi til Stjórnlagaþings langar mig að koma eftirfarandi á framfæri varðandi nýja Stjórnarskrá Íslands: Viðhorf og grunngildi.

Mannkynið hefur frá árdögum farið frá anarkisma til einræðis og frá einræði til þingræðis og flokksræðis. Eiginlegt lýðræði hefur líklega hvergi náð almennilega fram. Það er í anda einræðis/þingræðis/flokksræðis þegar ráðamenn ætla að vera svo vænir að auka áhrif almennings og jafnvel völd. Slík er fyrringin.

Í lýðræði er allt vald almennings og það vald er tjáð í þjóðaratkvæðagreiðslum og kosningum. Almenningur velur sér fulltrúa (framkvæmdastjóra) til að sjá um daglegan rekstur samfélagsins, kallað ríkisstjórn, eða ríkið. Þingmenn eru þeir sem eru valdir til að búa til siðareglur og leikreglur samfélagsins, kallað lög. Dómstólar eru það fólk, sem á að skera úr um hvort siðareglum, leikreglum og lögum hafi verið fylgt. Þannig má líta á Ísland eins og fyrirtæki, þar sem ríkistjórn er framkvæmdastjórn, með forsætisráðherra, sem framkvæmdastjóra, Forsetann sem forstjóra, Alþingi, sem stjórn, dómara sem endurskoðendur og almenning, sem eigendur/hluthafa. Samkvæmt þessu á ríkið ekki neitt, almenningur á það allt. Framkvæmdastjórnin hefur á stundum litið á sig sem ríkið, og eigendur ríkiseigna. Þess vegna telja þeir sig geta selt stærri eignir ríkisins, eins og bankana, eða gefið, eins og fiskkvótann, án þess að spyrja hina raunverulegu eigendur, Almenning.

Valddreifing: Sjórnun lýðræðisríkja er teymisvinna og því fleiri sem koma að ákvarðanatöku, því lýðræðislegri og víðsýnni er hún líkleg til að vera. Fara þarf varlega í að fækka ráðherrum og þingmönnum. Minna má á að auðveldara er að ná völdum í litlum hópum. Alþingi er líklega of fámennt til að vina-, fjölskyldu- og hagsmunatengsl verði ekki áberandi. Minna má á að önnur þjóðþing eru flest miklu fjölmennari. Jafnframt er mikilvægt að takmarka valdasetu ráðherra við t.d. 8 ár og allra helstu yfirmanna á launum hjá almenningi við t.d. 10ár.

Gegnsæi: Fulltrúar Almennings, sem átta sig á hlutverki sínu, eiga engin leyndarmál gagnvart Almenningi, umbjóðendum sínum og gera eins mikið í samráði við Almenning og hægt er. Þetta krefst algjörs gagnsæis í störfum þeirra. Allar stærri ákvarðanir og breytingar á samfélaginu eru lagðar fyrir Almenning, enda vilji Almennings eins og lög fyrir fulltrúana. Öfugt við það sem nú tíðkast. Vilji fulltrúana eru lög fyrir Almenning og ýmsir ráðherrar virðast halda að þeir séu kosnir sem einræðisherrar til fjögurra ára í senn.

Auðmýkt: Verðugir fulltrúar almennings starfa af virðingu fyrir Almenningi, umbjóðendum sínum og auðmýkt gagnvart þeirri visku, sem býr meðal Almennings. Þeir víkja samstundis, ef starf þeirra ber ekki tilætlaðann árangur og fórna óhikað sínum persónlegu þörfum, Almenningi til góðs. Þeir eru ekki í vandræðum með að láta vini og velgjörðarmenn, fjölskyldu og flokksmenn mæta afgangi sé það í þágu Almennings.

Tjáningarfrelsi: Tjáningarfrelsið er ekki bara mannréttindi, heldur ein af grunn þörfum manneskjunnar. Sé tjáningarfrelsi ekki til staðar aukast andleg vandamál manneskjunnar. Jafnframt leiðir takmarkað tjáningarfrelsi til samfélagslegs doða og stöðnunar. Öll helstu framfaratímabil mannkynssögunar hófust þegar tjáningarfrelsið hafði aukist og lauk þegar tjáningarfrelsið var kæft á ný. Tryggja þarf að sú þöggun, sem átti sér stað hérlendis í gróðærinu, og undanfara þess, verði rannsökuð, svo slíkt eigi sér aldrei aftur stað á Íslandi. Án fullkomins tjáningarfrelsis þrífst ekki lýðræðið. Tjáningarfrelsið ætti að vera eitt helgasta gildi lýðræðisríkja.

Það er með þessi grunnviðhorf í huga, sem ég nálgast endurbætur á íslensku Stjórnarskránni. Jafnframt á ég von á verulega bættri stjórnarskrá, ef þessi grunngildi og viðhorf til ríkisvaldins verða höfð til hliðsjónar hverjir svo sem veljast til starfsins.






Skoðun

Sjá meira


×