Lífið

LCD Soundsystem getur ekki klikkað – 7, 9, 13

James Murphy er eldri, þroskaðri og jafnvel hrokafyllri en áður.
James Murphy er eldri, þroskaðri og jafnvel hrokafyllri en áður.

Danspönkhljómsveitin LCD Soundsystem sendi frá sér plötuna This Is Happening í byrjun vikunnar. Platan er hugsanlega svanasöngur hljómsveitarinnar eftir að hafa starfað í aðeins átta ár.

LCD Soundsystem er verkefni bandaríska upptökustjórans James Murphy. Gagnrýnendur hafa verið um borð í LCD-bátnum frá upphafi, en tvær fyrstu plötur hljómsveitarinnar eru með 86 af 100 mögulegum í meðaleinkunn á vefsíðunni Metacritic.com. Nýja platan virðist ætla að fara sömu leið þar sem hún er þegar komin með meðaleinkunn upp á 87. Það er eins og LCD Sound­system geti hreinlega ekki klikkað.

Murphy hefur látið hafa eftir sér að This is Happening sé besta plata LCD Soundsystem. Rachael Maddux, gagnrýnandi tímaritsins Paste, er sammála. Hún segir að platan sé full af orku, sem minni einna helst á fyrstu plötu hljómsveitarinnar. Andy Beta, gagnrýnandi tónlistartímaritsins Spin, tekur í svipaðan streng og gefur plötunni fjóra af fimm mögulegum. Hann talar einnig um að platan hljómi öðruvísi en fyrri verk þar sem hún er tekin upp í glæsivillu upptökustjórans Ricks Rubin í stjörnuborginni Los Angeles. Hann segir að smáskífulagið Drunk Girls sé það eina á plötunni sem sé sniðið eftir formúlu popptónlistarinnar. Hin lögin koma þar af leiðandi meira á óvart. Andy segir ástæðuna fyrir því að Murphy sé eldri, þroskaðri og jafnvel hrokafyllri en áður.

Þrátt fyrir að platan virðist ætla að vera enn einn sigurinn fyrir James Murphy er framtíðin óljós. Hann segist ekki vera viss um að hann geri fleiri plötur undir merki LCD Soundsystem. This Is Happening gæti því verið svanasöngurinn, en það má þó búast við að þessi mikli snillingur haldi áfram að gera tónlist um ókomna tíð.

atlifannar@frettabladid.is

Hér er myndbandið við lagið Drunk Girls.

Hægt er að hlusta á plötuna hér á heimasíðu LCD Soundsystem.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.