Lífið

Rappaði í spinning-tíma

„Þau voru alveg að fíla þetta, sérstaklega píurnar,“ segir Erpur um viðtökurnar í World Class.
„Þau voru alveg að fíla þetta, sérstaklega píurnar,“ segir Erpur um viðtökurnar í World Class.

Þátttakendur í hádegisspinning í World Class í Laugum fengu óvæntan glaðning á dögunum þegar tónlistarmaðurinn Erpur Eyvindarsson skaut upp kollinum og rappaði nokkur lög fyrir mannskapinn.

„Ég bara mætti þarna í spinningtíma um hádegi, rappaði nokkur vel valin lög fyrir mannskapinn og kvaddi," segir Erpur, sem kom fram að beiðni samstarfsmanns síns og félaga til margra ára Atla Rúnars Hermannssonar sem hefur verið að þeyta skífum í spinning tímum í World Class í Laugum í vetur.

„Maður hefur verið að taka klúbbavinkilinn á þetta, svona þétta keyrslu með góðu bíti og ég vinn náið með kennurunum, sem gefa merki eftir því hvort eigi að hraða eða hægja á tónlistinni," segir Atli og bætir við að heimsókn Erps hafi verið vel tekið. Rapparinn samsinnir því. „Þau voru alveg að fíla þetta, sérstaklega píurnar. Þetta var svolítið eins og að koma fram á hip hop giggi, þar sem allir hreyfðust auðvitað sjálkrafa taktfast."

Þetta er í fyrsta sinn sem Erpur treður upp á líkamsræktarstöð. Hann segist þó vera öllu vanur til dæmis hafi hann í gegnum tíðina spilað á Litla-Hrauni, í barna-afmælum, á kvennakvöldum, í afmæli hjá presti, þar sem hann var beðinn um að fara með allar sínar klámfengnustu rímur, og auk þess komið fram með Sollu stirðu. „Í síðustu viku rappaði ég síðan í þrítugsafmælinu hjá honum Glysnigga, eins og ég kalla Gillzenegger. Það var mjög fyndið, þú veist, fullt af svona aflituðum körlum sem sofa í ljósabekkjum."

Erpur útilokar því ekki að hann muni einhvern tímann taka aftur lagið í spinning-tíma hjá dj Atla félaga sínum. „Ekki málið, ég er alveg til í þetta allt saman. Það er enginn óhultur," segir hann og glottir og Atli segðist hafa gaman af því að fá félagann aftur í heimsókn við eitthvert gott tækifæri.

En eru drengirnir duglegir að taka á því í ræktinni. „Já, já, ég er að æfa á fullu, lyfta og þess háttar," segir Atli. Erpur hugsar sig um. „Það er nú eitthvað minna um það. Ég var á kafi í sundi og siglingum þegar ég var yngri, það var nú alveg helvíti gott en menn hreyfa sig núna bara þegar þeir nenna."

roald@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.