Lífið

Ljósmyndin í fyrirrúmi á Listahátíð

Cindy Sherman: Ónefnd kvikmyndaskot / Untitled Film Stills, 1978. Svarthvít ljósmynd / Black and white photograph
8 x 10 tommur / inches. Með leyfi listamanns og Metro Pictures / Courtesy of the Artist and Metro Pictures.
Cindy Sherman: Ónefnd kvikmyndaskot / Untitled Film Stills, 1978. Svarthvít ljósmynd / Black and white photograph 8 x 10 tommur / inches. Með leyfi listamanns og Metro Pictures / Courtesy of the Artist and Metro Pictures.
Listahátíð í Reykjavík hófst í gær í fertugasta sinn. Fjöldi viðburða er á dagskránni næstu þrjár vikur og vara sumar sýningar langt inn á sumarið. Hátíðin er fyrir löngu orðinn einn helsti boðberi sumars og ljósfylltra daga í Reykjavík og þótt hún hafi mátt draga úr kröftum sínum í ljósi efnahagsaðstæðna er mikil og fjölbreytt dagskrá í boði.

Ljósmyndin setur stóran svip á dagskrá hátíðarinnar. Hingað koma margir góðir gestir með myndefni sitt og hefur ekki í annan tíma verið annað eins flóð af ljósmyndaverkum á sýningarstöðum vítt og breytt um höfuðborgarsvæðið. Það eru bæði innlendir og erlendir ljósmyndarar sem sýna og er á næstu vikum einstakt tækifæri fyrir almenning að kynnast þessu fjölbreytta skráningar- og listformi sem ljósmyndin er.

Fyrsta ber að telja listakonuna Cindy Sherman en sýning með verkum hennar í Listasafni Íslands verður opnuð á laugardag. Sherman sýnir þar Stills, safn uppstilltra ljósmynda þar sem listakonan sviðsetur sig í heim svart/hvítra augnablika úr vestrænni kvikmyndahefð. Cindy er löngu viðurkennd sem einn merkasti listamaður sinnar tíðar.

Annar New York-búi sýnir myndir sínar í Listasafni Reykjavíkur, David Byrne, og á upplýsingastöndum Reykjavíkur segir: Byrne er þekktastur fyrir rekstur sinn á combóinu Talking Heads en hefur síðan lagt gjörva hönd á margt.

Finnar hafa á örfáum árum markað sér sérstöðu í heimi nútíma ljósmyndunar: í Norræna húsinu koma þrír finnskir ljósmyndarar saman með þremur íslenskum starfsbræðrum sínum í sýningunni Núna. Þar eru bæði myndbandsverk og ljósmyndir. Spessi og Katrín Elvarsdóttir eru sýningarstjórar.

Katrín er sjálf með sýningu í Gallerí Ágúst á Baldursgötu 12 sem opnar í dag: þar sýnir hún verk úr röðinni Equivocal sem hún hefur unnið að síðustu þrjú ár.

Stalla hennar, Bára Kristinsdóttir, sem er ein þeirra sem eiga myndir á Núna, er líka með sýningu á nýju efni í sal Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsi, Miðbakkamegin, sem er opnuð á sunnudag. Hún kallar sýninguna Stilla og eru allar myndirnar teknar í Reykjavík í janúar á þessu ári. Með þessum myndum vill Bára lýsa stemmingunni sem var í borginni þessa fyrstu daga ársins 2010.

Þriðja konan sem sýnir verk sín næstu vikur er Inga Sólveig Friðjónsdóttir en hún opnar á morgun innsetningu í glugga Auga fyrir auga sem hún kallar Volcanic bedroom. Eins og titillinn gefur til kynna er listamaðurinn undir áhrifum eldgosa sem hér hafa dunið yfir að undanförnu. Auga fyrir auga er á Hverfisgötu 35, á horni Klapparstígs og Hverfisgötu.

Ólöf Nordal er kunnari af skúlptúrum sínum en ljósmyndaverkum en í Listasafni ASÍ við Freyjugötu sýnir hún ljósmyndaverk sem snerta arfleifð þjóðar á gagnrýninn og beittan hátt. Hún stillir saman nýjum myndum við myndir af eldri minnum úr þjóðarsögunni svo ný merking fæðist í árekstri tveggja miða.

Á Kjarvalsstöðum er Annað auga, sýning ljósmyndaverka úr safni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur sem eiga stærsta safn samtímaverka í einkaeign hér á landi. Birta Guðjónsdóttir hefur dregið saman úr safni þeirra verk íslenskra og erlendra listamanna sem nota ljósmyndina í verkum sínum og er spennandi að sjá hvaða listamenn hún kallar á fund við gesti Kjarvalsstaða. Annað auga opnar í dag kl. 17.

Sýningin á Kjarvalsstöðum rímar við yfirlitssýningu ljósmyndaverka Sigurðar Guðmundssonar sem mynda sýninguna Situations and other photo works 1974-1982 í gallerí i8. Ljósmyndaverkin voru eitt það fyrsta sem vakti athygli á Sigurði og mörgum er kunn samnefnd bók sem hér kom út fyrir nokkrum árum helguð seríunni. Situations-verkin eru víðkunn í alþjóðlegum listaheimi en sum þeirra hafa ekki áður sést hér á landi - fyrr en nú.

Stór útiljósmyndasýning er komin upp á húsveggjum í miðborg Reykjavíkur. Þrettán listamenn sýna verk sín og kalla sýninguna Raunveruleikatékk.

Norður á Akureyri er samsýning fimm listamanna sem skoða naumhyggjuna í íslenskum ljósmyndaverkum síðustu áratuga og kalla þeir hana Straumur - burðarás.

Önnur samsýning er uppi í Listasafni Reykjanesbæjar: Efnaskipti. Anna Líndal leiðir hóp fimm kvenna sem vinna með ljósmyndir.

Í Hafnarborg sýnir þýski ljósmyndarinn Friederike von Rauch myndir sem hún tók í dvöl sinni á listamannasetrinu Bæ í Skagafirði.

RAX, hinn kunni ljósmyndari, hefur sett upp nokkur verk sín í húsnæði Crymogeu á Barónsstíg og kallar sýninguna Svipi.

Sýning Gary Schneiders í Hafnarhúsi birtir okkur einhvers konar svipi í sérstakri tökutækni hans af nöktum líkömum. Gary er þekktur og mun hann vera með fyrirlestur á morgun um hádegisbilið í Hafnarhúsi um aðferð sína og list en sýning hans opnar á laugardag.

Af öðru sauðarhúsi eru sýningar tveggja safnara: Unnar Örn J. Auðarson er með innsetningu í Listasafni Reykjavíkur sem er sótt í safnmuni reykvísku safnanna, en í Skaftfelli á Seyðisfirði eru verk eftir Geira - Ásgeir Emilsson uppi.

Báðar sýningarnar skarast við aðrar greinar en falla samt að hluta innan þeirrar ljósmyndaflóru sem birtist gestum safna á næstu dögum.

Þá eru ótaldar merkilegar tveggjamannasýningar sem eru nokkrar: Einar Falur fer í slóð Collingwoods og við sjáum mótíf í landslagi frá tveimur ólíkum tímum á sýningu í Þjóðminjasafninu.

Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur er tveggja heima sýn í myndum Thomsen og Thomsen, Péturs og Péturs sem ein kynslóð aðskilur.

Í-Kling & Bang sýna Maria Dambek og Robin McAulay ljósmyndaseríu frá Berlín af frægu listahúsi hústökumanna, Þórsgötu 111.

Tvíeykið Nikolai von Rosen og Florian Wojnar sýna í Nýlistasafninu uppstillingar sem þeir koma fyrir á ólíklegustu stöðum.

Þá er að lokum að nefna sýningu úr Breiðholtinu: Friðgeir Helgason hefur fest staði bernsku sinnar á filmu í því góða hverfi.

Það er því nóg að sjá: 22 sýningar sem eru í senn á mörkum og í miðju ljósmyndunar okkar tíma.

pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.