Lífið

Sláturhús hjartans á laugardag

Anna Richards í verki sínu sem flutt verður í hráum sal á Hjalteyri á laugardag.
Anna Richards í verki sínu sem flutt verður í hráum sal á Hjalteyri á laugardag.
Anna Richards flytur á laugardag dansgjörninginn „Sláturhús hjartans" í listrými Verksmiðjunnar á Hjalteyri við Eyjafjörð. Sýningin hefst kl. 17.

Höfundar verksins eru Anna Richards dansgjörningalistakona og Sigurbjörg Eiðsdóttir myndlistarkona. Í verkinu koma fram, auk Önnu, Hallgrímur J. Ingvason tónlistarmaður, Helga Rós Indriðadóttir sópransöngkona, Sigurður Hólm Sæmundsson björgunarsveitarmaður og Karlakór Dalvíkur undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Sviðsstýra og ljósmóðir verksins er Lene Zachariassen.

Í verkinu er fjallað um ferðalag mannveru innan völundarhúss hjarta þess og þau átök sem þar eiga sér stað og leiða hana í gegnum ferli ástríðna, uppgjafar, ótta, skilnings og umbreytinga.

Umgjörð verksins er unnin inni í rými gömlu síldarbræðslunnar á Hjalteyri og er áhorfendum frjálst að færa sig til í rýminu meðan á flutningi verksins stendur því einnig er hægt að fylgjast með verkinu af annarri hæð hússins. Tónlist í verkinu er að hluta frumsamin og flutt sem spunaverk þar sem dansari og tónlistarmenn spinna saman.

Norðanmenn eiga kost á sætaferð á sýninguna frá Listasafninu á Akureyri kl. 16.30. Ókeypis er á sýninguna en hún hlaut styrk frá Leiklistarráði Íslands og Menntamálaráðuneyti 2010 og frá Menningarráði Eyþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.