Innlent

Telur ívilnun geta verið ríkisaðstoð

Verne Holdings tryggði sér staðsetningu undir gagnaver fyrir rúmum tveimur árum. Framkvæmdir hafa legið niðri um skeið. Fréttablaðið/Valli
Verne Holdings tryggði sér staðsetningu undir gagnaver fyrir rúmum tveimur árum. Framkvæmdir hafa legið niðri um skeið. Fréttablaðið/Valli
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ákvað í gær að hefja formlega rannsókn á því hvort ríkisstuðningur fælist í fyrirhuguðum undanþágum Verne Holdings frá sköttum og gjöldum til ríkis og sveitarfélaga. Auk þess mun stofnunin skoða orkusölusamning, kaup á fasteignum, lóðaleigu og samning um gagnaflutning til gagnavers Verne Holdings.

Fyrirtækið keypti skemmur í febrúar árið 2008 og hefur unnið að byggingu gagnavers á svæðinu. Framkvæmdir hafa verið í lágmarki upp á síðkastið og óvíst hvenær það getur hafið rekstur.

Alþingi samþykkti að veita Verne Holdings ívilnanir í júní í sumar og sendi erindi um það til ESA í september. „Þetta var viðbúið og kemur okkur ekki á óvart. Við vonum að rannsóknin taki ekki of langan tíma,“ segir Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne Holdings.

Í rökstuðningi ESA fyrir rannsókninni segir að bygging gagnaversins hafi hafist án stuðnings yfirvalda og vill stofnunin meta hvort ívilnanir séu nauðsynlegar til að unnt verði að ljúka framkvæmdum. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×