Handbolti

Landsliðið kemur ekki til Linz fyrr en klukkan tvö í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson sést hér taka víti í leiknum á móti Frökkum í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson sést hér taka víti í leiknum á móti Frökkum í dag. Mynd/AFP
Íslenska karlalandsliðið í handbolta er nú á leiðinni frá París til Linz í Austurríki þar sem liðið spilar sinn fyrsta leik í Evrópumótinu í Austurríki á þriðjudagskvöldið.

Íslenski hópurinn hélt af stað út á flugvöll í París fljótlega eftir leikinn á móti Frökkum í dag en kemur líklega ekki upp á hótel í Linz fyrr en klukkan tvö í nótt.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, mun örugglega leyfa strákunum sofa út í fyrramálið og jafna sig eftir mikla æfingaleikjatörn þar sem liðið spilaði fimm landsleiki á aðeins átta dögum auk þess að ferðast tvisvar til Evrópu og einu sinni til baka til Íslands.

Íslenska liðið vann fjóra leiki af fimm í undirbúningnum og tapaði aðeins leiknum á móti Frökkum í dag þar sem Guðmundur hvíldi lykilmenn og notaði aldrei sitt sterkasta lið á sama tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×