Skoðun

Eina leiðin til að skrifa góða stjórnarskrá á 4 mánuðum

Gunnar Grímsson skrifar

Á komandi Stjórnlagaþingi verður tekist á um mörg mál. Jafnvel þó allir verði sammála um að fara eftir niðurstöðum Þjóðfundarins. Þær eru um sumt skýrar en margt þar er misvísandi og annað sem er hægt að túlka út og suður. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á frábæran Þjóðfund heldur aðeins benda á staðreyndir.

Ég hef ekki áhyggjur af því að fólk með mismunandi skoðanir skipi Stjórnlagaþingið. Það er gott og nauðsynlegt. En ég hef áhyggjur af öðru. Vinnulag okkar Íslendinga er því miður allt of oft byggt á því að grípa fyrstu lausnina sem hljómar vel og hlaupa af stað með hana. Og afgreiða í snatri. Við erum ansi góð í því reyndar, betri en margar aðrar þjóðir, hamhleypur til verka.

En við erum að fara að skrifa nýja stjórnarskrá og stjórnarskrá skrifuð með þessari aðferð verður seint góð, því miður. Við hreinlega verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að skrifa virkilega góða stjórnarskrá þar sem hvert atriði er vandlega ígrundað og allar lausnir skoðaðar niður í kjölinn. Og fundin bestu rök með og á móti sérhverri lausn til að hægt sé að meta hversu góð hún er.

En hvernig á að gera þetta á fjórum mánuðum? Fyrir 20 árum síðan hefði það varla verið hægt. Fyrir 5 árum síðan erfitt en ekki ómögulegt. En í dag er það hægt og í raun auðvelt. Hvernig? Jú, með því að nota nútíma samskiptatæki sem nýtir alla þjóðina til þessara verka. Frumgerð þess tækis var notuð á vefnum Betri Reykjavík sem Besti flokkurinn nýtti sér til að kalla eftir hugmyndum og rökum borgarbúa sem mörg hver fóru inn í málefnaskrá borgarstjórnarmeirihlutans. Ný útgáfa kerfisins er væntanleg á næstunni sem er mun einfaldari og þægilegri í notkun en Betri Reykjavík. Sjá grófa hugmynd á

http://kjosa.is/myndir/Stjornlagathing_skissa_badar_sidur.png

Framkvæmdin er einföld. Lausnin er sett inn í kerfið á einföldu og skýru máli. Allir geta sett inn lausnir en ekki bara Stjórnlagaþingmenn. Og allir geta sett inn rök, með og á móti lausninni. Allir notendur geta síðan merkt hvort rökin eru gagnleg eða ekki. Og gagnlegustu rökin fljóta efst á meðan ruslið og síðri rök hverfa. Úr þessum grunni geta Stjórnlagaþingmenn fundið, á einfaldan og fljótlegan hátt, bestu mögulegu lausnirnar á hverju vandamáli.

Þetta er eina færa leiðin til að búa til góða stjórnarskrá á fjórum mánuðum.

 




Skoðun

Sjá meira


×