Erlent

Mál og menning meðal 12 bestu í heimi

Óli Tynes skrifar

Mál og menning við Laugaveg er nefnd meðal tólf bestu bókabúða í heimi á lista sem danska blaðið Berlingske Tidende tók saman.

Á listanum eru bókabúðir eins og Hatchards í Lundúnum sem er elsta starfandi bókabúð þar í landi. Hún var stofnuð árið 1797 og meðal viðskiptavina eru taldir Rudyard Kipling, Oscar Wilde og Byron lávarður.

Á listanum eru einnig Cathach í Dublin sem í útstillingarglugga sínum er með áritaðar bækur eftir Samuel Beckett, Oscar Wilde og Bram Stoker.

The Mysterious Bookshop í New York er ein af elstu bókabúðum Bandaríkjanna. Hún sérhæfir sig í krimmum eins og nafnið bendir til. Þar er að finna áritaðar bækur eftir höfunda eins og Arthur Conan Doyle. Og svo ódýrari krimma eftir höfunda í öllum heimshornum.

Shakespeare & Company í París er hrósað fyrir að hafa opið til klukkan ellefu á kvöldin. Bókaunnendum til mikillar ánægjur.

Það var bandarískur hermaður sem ákvað að setjast að í Frakklandi eftir síðari heimsstyrjöldina sem stofnaði þessa bókabúð.

Á listanum eru einnig taldar upp bókabúðir í Portúgal, Þýskalandi og Brazilíu sem þykja skara framúr.

Um Mál og menningu segir að hún sé vel búin bókabúð með góðum anda. Hún sé til vitnis um fína frásagnargáfu Íslendinga en þar sé einnig mikið úrval af literatúr á ensku sem nái langt útyfir aðeins metsölubækur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×