Skoðun

Afnemum hverfaskiptinguna strax

Þann 30. júlí síðastliðinn birtist grein í Fréttablaðinu eftir Súsönnu Margréti Gestsdóttur þar sem hún lýsir yfir stuðningi við nýjar innritunarreglur í framhaldsskóla og hvetur til víðsýnni umræðu um skólamál á Íslandi. Í grein Súsönnu sá ég í fyrsta sinn rök fyrir þessum nýju reglum og fannst mér greinin því einkar áhugavert innlegg í þessa þjóðþörfu umræðu. Súsanna telur að fjölbreytni innan framhaldsskólanna aukist með þessum nýju reglum, að brottfall nemenda sé "mun brýnna umhugsunarefni" en vankantarnir á hinu nýja kerfi og að engum þeim sem ljúka grunnskólanámi sé vísað í lélegan framhaldsskóla.

Á Íslandi hefur lengi verið ákveðin þöggun varðandi menntakerfið okkar. Því hefur verið haldið uppi af menntamálaráðuneytinu, flestum framhaldsskólum og víða í hinni samfélagslegu umræðu að framhaldsskólarnir séu sambærilegir og að stúdentspróf frá einum þeirra jafngildi stúdentsprófi frá öðrum. Því að þannig á það að vera. Það á ekki að fá að hafa afgerandi áhrif á líf ungra Íslendinga - neikvæð eða jákvæð - hvort þeir lendi í FB en ekki MH, Kvennó en ekki Borgó.

Þetta viðhorf endurspeglast í grein Súsönnu Margrétar sem inniheldur marga góða punkta en viðurkennir þó ekki grundvallarvanda íslenska menntakerfisins. Því að á Íslandi eru óneitanlega bæði góðir og lélegir skólar. Hvernig öðruvísi má útskýra þá staðreynd að nokkrir skólar fái langflestar umsóknir miðað við fjölda plássa í boði og að nokkurn veginn sami hópur af skólum komi áberandi best út úr könnun meðal nýnema í HÍ? Í sömu könnun kemur fram að í sumum skólum telja um 30% stúdenta að námið hafi ekki undirbúið sig undir háskólanám. Hljóta það ekki að teljast lélegir skólar?

Menntamálaráðherra virðist hafna því. Hún telur kerfið nógu staðlað og skólana nógu sambærilega til að innleiða kerfi hverfaskiptingar þar sem 45% af nýnemum í framhaldsskóla verða að koma af tilteknu svæði í nágrenni skólans. Skólarnir halda áfram að meta nemendur út frá einkunnum og afleiðingin er einstaklega óréttlátt skipting þar sem nýnemar í vissum borgarhlutum njóta forréttinda umfram aðra eftir því hvort þeir hafa áhuga á bíliðngreinum, ferðamálanámi eða bóknámi sem veitir þeim góðan undirbúning fyrir háskólanám. Vitleysan er svo fullkomnuð þegar skólarnir hafa ekki einu sinni samræmdar einkunnir til að miða við heldur einungis skólaeinkunnir sem gefa mismunandi mynd af námsárangri nemenda eftir því úr hvaða grunnskóla þeir koma.

Súsanna fullyrðir að í mörgum framhaldsskólum sé nemendahópurinn orðinn einsleitur miðað við það hvernig hann var áður en hverfaskiptingin var afnumin á sínum tíma, enda kynnist nemendur aðeins fólki "með svipaðan bakgrunn og sambærileg framtíðaráform". Þetta hlýtur að teljast illa ígrunduð afstaða. Menntamálaráðuneytið veitir skólunum ákveðin verkefni og gefur þeim jafnframt svigrúm til að marka eigin sérstöðu. Þetta hafa nemendur í huga þegar þeir velja sér skóla. Þegar hverfaskipting kemur ofan á þetta kerfi eru nemendur ekki aðeins skikkaðir til að halda áfram í sama félagslega umhverfi með bekkjarfélögum sínum úr grunnskóla og öðrum í nærumhverfinu, heldur þvingaðir í það nám sem hverfisskólinn býður upp á og þar af leiðandi útilokaðir frá öðrum framtíðaráformum en þeim sem námið miðar að.

Hverfaskipting framhaldsskólanna er ekki réttlætanleg nema þeir bjóði allir upp á sama nám. Slíkt er svo sannarlega ekki staðan í dag, enda er það óeðlilegt og óhagkvæmt. Fjölbreytnin í framhaldsskólaflórunni er af hinu góða, enda fær nemandinn að velja nám sem hentar áhugasviði hans. Slíkt leiðir ekki til "einsleitni", heldur kynna við fólk úr öllum áttum með svipuð áhugasvið. Það er einmitt hverfaskiptingin sem dregur úr fjölbreytni í nemendahópnum.

Við Súsanna erum sammála um að það eru mörg vandamál í íslenska menntakerfinu, en nýju innritunarreglurnar í framhaldsskóla eru ekkert svar við þeim. Grundvallarvandamálið er að margir skólar - bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi - bjóða ekki upp á krefjandi en jafnframt spennandi nám sem veitir raunverulegan undirbúning fyrir lífið þannig að nemendur sjái tilgang í að ná árangri. Afleiðingin er mikið brottfall úr framhaldsskólum sem er vandamál sem við getum ekki sætt okkur við. Auðvitað veita einkunnir takmarkaðar upplýsingar um nemendur og það er sjálfsagt að hugsa sér aðrar leiðir í innritunarferlinu. Ein leið væri að nýnemar skrifi stutta ritgerð sem fylgi með umsókn þeirra í framhaldsskóla þar sem þeir kynna viðhorf sín og áhugasvið. Slíkar upplýsingar eru mun persónulegri og marktækari en heimilisfang.

Mennt er máttur og í veröld nútímans er þjóð ekki frjáls og sjálfstæð nema hún sé menntuð og upplýst. Menntakerfið á Íslandi þarf auknar fjárveitingar og aukna athygli stjórnmálanna. En meðan að við bíðum eftir að það sé raunhæfur möguleiki þarf að afnema þessar nýju innritunarreglur - þær eru ósanngjarnar, illa ígrundaðar og gera ekkert nema að ýkja þau vandamál sem eru til staðar.




Skoðun

Sjá meira


×