Skoðun

Stjórnarská fyrir fólkið.

Jónas Pétur Hreinsson skrifar

Núna undanfarið hef ég lagt við hlustir eftir skoðunum fólks og annara frambjóðenda til stjórnlagaþings. Það sem ég hef orðið var við er að mörgum er mjög í mun að herða allar reglur til að stýra löggjafanum, dóms- og framkvæmdavaldinu og setja hörð viðurlög við brotum á þeim greinum stjórnarskrárinnar sem að þeim lúta. Þetta vilja menn gera með stjórnarskránni okkar. Mín skoðun er sú að ekki eigi að byggja þjóðfélagið á stjórnarskrá sem er einhver refsivöndur. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef af því verður. Ætlum við að byggja hér þjóðfélag sem er réttlátt og fyrir okkur borgarana eða ætlum við með stjórnarskránni að byggja upp eitthvert þjóðfélag refsigleði.

Það er í eðli löggjafans, dóms- og framkvæmdavaldsins að að setja reglur sem herða að rétti þegnanna. Nú eru þær reglur myndaðar af óljósri skilgreiningu á réttundum okkar borgaranna. Allt er það gert til að vernda borgarana frá því að stíga út fyrir þær línur sem þeir sömu hafa sett um hvað er rétt og ásættanleg hegðun.

Stjórnarskráin í núverandi mynd er barn síns tíma og var það jafnvel þá, að mínu mati, þegar hún var samþykkt með breytingum frá þeirri sem okkur var gefin 1874. Það liðu ekki nema 5 ár frá samþykkt hennar þar til stjórnarskrá þýska lýðveldisins var samþykkt. Í henni er skilgreint á nýjan hátt hvað er mikilvægast hverju lýðveldi, mannleg reisn, friðhelgi hennar og frelsi borgaranna.

Núna býðst hins vegar tækifæri til að við borgararnir sem þessi þríeind valdsins á í raun að þjóna endurskrifum reglurnar. Með stjórnlagaþingi opnast nú sá möguleiki að skrifa stjórnarskrá sem tryggir okkur borgurunum þann rétt og þau ítök sem við eigum í raun að hafa á eðli þessarar þríeindar. Stjórnarskráin er það plagg sem best skilgreinir okkur sem þjóð. Stjórnarskráin á því að vera okkar borgarana því hverjir aðrir eru landið og þjóðin ef ekki við borgararnir?

Það þarf að styrkja rétt okkar til að koma að ákvörðunartöku mikilvægra mála sem varða hag þjóðarinnar. Jafnvel á þann hátt að við þegnar landsins geti neytt ráðamenn til að hlíta úrskurði þjóðarinnar. Þegar mál eru lögð í þjóðaratkvæði þá verði úrskurður þjóðarinnar endanlegur en ekki til viðmiðunar.

Mín helstu áherslumál eru eftirfarandi:

1: Mannleg reisn og friðhelgi hennar. Fyrir alla sama hvaða þjóðfélagshópi þeir kunna að tilheyra.

2: Ítarlegri málskotsréttur þjóðarinnar, þjóðaratkvæðagreiðslur.

3: Persónukjör til Alþingis.

4: Aðskilnaður ríkis og kirkju.

5: Að auðlindir Íslands verði eign þjóðarinnar sem ekki verði hægt að framselja.

6: Embættismenn verði valdir til 4. ára í senn og geti þeir ekki setið sem embættismenn fyrir þjóðina lengur en 12 ár samfleytt.

7: Seta þingmanna verði ekki háð tímamörkum ef þeir eru kjörnir í persónukjöri en það myndi vera brot á lýðræðislegum rétti að setja einhver tímamörk þar á. Ef hins vegar verður kosið eftir flokkum eins og fyrirkomulagið er núna þá myndi ég vilja hámarka setu þingmanna við 8 ár. Þingmenn eða embættismenn geta ekki setið meira en 12 ár samfleytt.

Stjórnarskrá á ekki að vera of flókin. Hún á ekki að vera nýtt til að stýra þjóðfélagsgerð. Þjóðfélagið er breytilegt og breytist með tímanum. Góð og vel ígrunduð stjórnaskrá getur staðist tímans tönn og mögulegar breytingar á þjóðfélaginu. Hér skiptir einfaldleikinn meira máli heldur en að nota stjórnarskrána til að byggja upp einhverja félagslega lagskiptingu sem úreldist með tímanum.

Hefjum stjórnarskána okkar á "Ísland er lýðveldi. Allir borgarar lýðveldisins Ísland eiga rétt á mannlegri reisn og er hún friðhelg."






Skoðun

Sjá meira


×