Innlent

Sumir eru í afneitun

Ásta S. Helgadóttir, forstöðukona Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
Ásta S. Helgadóttir, forstöðukona Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
Verulega er farið að þrengja að fólki, bæði þeim sem bitu á jaxlinn þegar kreppan skall á haustið 2008 og tóku út séreignarsparnað sinn sem og barnafólki í skuldavanda.

„Það er huglægt hvernig fólk upplifir greiðsluerfiðleika. Sumir eru hreinlega í afneitun," segir Ásta S. Helgadóttir, forstöðukona Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Hún segir mikilvægt að fólk leiti sér hjálpar fyrr en seinna. Oft komi fyrir að fólk geri það of seint, þegar eignir þess eru við það að fara á uppboð eða degi áður en frestur á nauðungarsölu fasteigna rennur út.

Hún mælist til þess að stjórnvöld horfi til aðgerða annarra þjóða sem glímt hafi við kreppu. „Finnar segja það hafa bjargað miklu að hafa fríar máltíðir í skólum. Það myndi skipta miklu fyrir börn foreldra sem geta ekki borgað skólamáltíðir," segir hún.

Ásta bindur miklar vonir við að frumvarp um stofnun embættis umboðsmanns skuldara verði að lögum áður en Alþingi fer í frí á þriðjudag í næstu viku. Gangi það eftir verður Ráðgjafarstofan lögð niður og tekur embætti umboðsmanns við störfum hennar. „Það mun vonandi forða fólki frá gjaldþroti," segir Ásta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×