Erlent

Norskir nazistar vildu nýlendur í Rússlandi

Óli Tynes skrifar
Quisling hittir foringjann.
Quisling hittir foringjann.

Leppstjórn nazista í Noregi í síðari heimsstyrjöldinni hafði í hyggju að biðja Adolf Hitler um að gefa Norðmönnum nýlendur í Rússlandi eftir að búið væri að sigra það.

Norðmenn minnast þess í dag að sjötíu ár eru liðin frá því Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg. Þar tók við völdum leppstjórn nazista sem Vidkun Quisling stýrði.

Af því tilefni hafa verið birt opinberlega ýmis gögn úr norska þjóðskjalasafninu

Þegar Þjóðverjar réðust inn í Rússland (Þá Sovétríkin) árið 1941 þóttist leppstjórnin sjá möguleika á að fá umbun fyrir trúmennsku sína við Hitler.

Hún vildi fá að setja upp norskar nýlendur í Rússlandi og Úkraínu. Þetta kemur meðal annars fram í bréfum sem ráðgjafar Quislings skrifuðu sín á milli á þeim tíma.

Í einu bréfi sem er dagsett 26. júní fjórum dögum eftir innrásina skrifar einn ráðgjafinn um rök sem þeir gætu fært fyrir því að fá nýlendurnar.

Þau voru að Rússland yrði betur nýtt af germönsku fólki, þar sem slavar kunni ekki að nýta sér landgæði.

Svo fór þó að foringinn reið ekki feitum hesti frá Rússlandi. Og arfleifð leppstjórnarinnar í Noregi er helst sú að nafnið Quisling er alþjóðaheiti yfir landráðamenn.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×