Lífið

Lúxusendursýning á Avatar

Ævintýramyndin Avatar verður hugsanlega endursýnd í lúxussal Smárabíós í lok ágúst.
Ævintýramyndin Avatar verður hugsanlega endursýnd í lúxussal Smárabíós í lok ágúst.
Töluverðar líkur eru á að Sena endursýni ævintýramyndina Avatar í lok ágúst í þrívídd í lúxussalnum í Smárabíói. Ekki var hægt að sýna myndina í þrívídd í salnum á sínum tíma en núna er tæknin fyrir hendi.

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin enn þá en þetta er mjög spennandi. Það veltur á því hvort það sé grundvöllur fyrir því að menn hafi áhuga á að sjá hana í bíó, þrátt fyrir að hún sé komin út á DVD og að einn þriðji landsmanna hafi séð hana í bíó,“ segir Guðmundur Breiðfjörð hjá Senu.

Samkvæmt erlendum fréttamiðlum verður Avatar endursýnd í þrívídd víða um heim í haust, sökum þess að þrívíddarsölum hefur fjölgað til muna að undanförnu. Í mars þurfti myndin að víkja úr þrívíddarsölum vestanhafs þegar Lísa í Undralandi var frumsýnd en núna fær Avatar annað tækifæri.

Ekki skemmir fyrir að átta mínútum verður bætt við myndina, aðdáendum hennar til mikillar ánægju. „Ef þeir ætla að bjóða upp á átta mínútna aukaefni er engin spurning að við könnum þetta,“ segir Guðmundur og útilokar ekki að hún verði sýnd víðar en í lúxussalnum. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.