Skoðun

Sjálfbær bankastarfsemi

Ari Teitsson skrifar
Hugtakið sjálfbær mun fyrst hafa fengið skýra merkingu í umfjöllun Gro Harlem Brundtland og þá sem hverjar þær athafnir sem þjóna í nútíð án þess að spilla möguleikum framtíðarinnar.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hve bankastarfsemi undanfarinna ára hefur verið langt frá því að vera sjálfbær.

Nýlega fengu þrír norrænir bankar umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir að byggja starfsemi sína á að fjármagna þjóðfélag framtíðarinnar, sem sýnir viðhorf ráðsins til sjálfbærrar bankastarfsemi.

Vaxandi áhugi virðist fyrir slíkri bankastarfsemi a.m.k. á Vesturlöndum sem skýrist vætanlega af bankahruni undanfarinna ára og vaxandi áhyggjum af að við séum með athöfnum okkar að spilla möguleikum komandi kynslóða á of mörgum sviðum.

Hugleiðum hvernig sjálfbær bankastarfsemi gæti litið út í íslensku ljósi:

Upphaflegur tilgangur bankastarfsemi var að taka við lausu fjármagni ogmiðla því tíl þeirra sem þurfa fjármagn til uppbyggingar og framkvæmda með sem minnstum kostnaði, sú þörf er síst minni nú. Jafnframt þyrfti að hyggja að þvi hvaða áhrif þær framkvæmdir sem lánað er til muni hafa á umhverfi okkar og framtíðarmöguleika. Til að tryggja jafnræði slíkrar lánastarfsemi og þekkingu á viðfangsefnum virðist æskilegt að hún sé staðbundin eða a.m.k. landshlutabundin.

Breið staðbundin þátttaka í eignarhaldi og stjórnum væri væntanlega ávísun á aukna sjálfbærni og takmarkanir á arðgreiðslum myndu virka á sama hátt.

Sú bankastarfsemi sem lýst er hér að framan fellur vel að upphaflegum tilgangi sparisjóðanna og gildandi lögum um sparisjóði.

Æskilegt virðist að starfandi sparisjóðir og sparisjóðir framtíðarinnar þróist í þessa átt, en það er ekki sjálfgefið. Þar ráða ábyrgðarmenn sparisjóðanna (stofnfjáreigendur)og stjórnendur miklu, en ekki síður viðskiptavinir sparisjóðanna.

 




Skoðun

Sjá meira


×