Skoðun

Hvers vegna við þurfum að breyta stjórnarskránni

Alfreð Hafsteinsson skrifar

Stjórnskipulagið sem við höfum búið við á undanförnum áratugum er um margt meingallað.

Virðing fyrir stjórnvöldum er mjög lítil og það er í raun óhugsandi að þannig geti það verið. Við verðum sem þjóð að geta verið sæmilega sátt við stjórnvöld í landinu og geta haft það á tilfinningunni að allir forystumenn þjóðarinnar, þingmenn og ráðherrar séu að vinna þjóðinni gagn þó áherslurnar séu misjafnar.

Almenningur er búinn að fá yfir sig nóg af karpi og upphrópunum niðri á alþingi. Sem svo á endanum bíður eftir því að frumvörp um nánast öll mál komi úr ráðuneytunum og alþingi virkar svo sem afgreiðslustofnun. Því miður þá hafa stjórnmálamenn á Íslandi sýnt það að þeir eiga mjög erfitt með að vinna saman þvert á flokka eða kosningabandalög. Jafnvel í stórum málum undanfarna áratugi sem virkilega hafa skipt alla þjóðina máli þá hafa slík mál verið keyrð í gegnum þingið á litlum meirihluta, hvað þá að það kæmi til greina að spyrja þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fjármálahrunið og eftirmálar þess hafa í raun kallað fram og sýnt svo ekki verður um villst veikleika stjórnkerfisins. Skýrt hefur komið fram hve ráðherraræðið er óeðlilega mikið.

Ég tel að til þess að gera alþingi virkt afl þar sem fólk ræðir saman og kemst svo að bestu niðurstöðu fyrir þjóðina sem um leið mundi auka virðingu alþingis, þyrfti að gera eftirfarandi breytingar:

Það þyrfti að breyta kjördæmaskipaninni og gera landið að einu kjördæmi. Kosningakerfið yrði mjög einfalt og um leið yrði vægi atkvæða að baki hverjum þingmanni alveg jafnt. Auðvelt yrði að opna fyrir persónukjör í slíku kerfi. Við erum lítil þjóð í stóru landi og þrátt fyrir að stærsti hluti þjóðarinnar búi á suðvesturhluta landsins, þá eru tengslin við landsbyggðina mikil og sterkar taugar út í hin ýmsu byggðarlög hjá þorra fólks. Ég er þess vegna fullviss um að þetta hefði ekki neikvæð áhrif fyrir landsbyggðina. Kjörnir þingmenn hefðu alveg jafn sterkar taugar til „heimahaganna" hvort heldur sem þeir kæmu úr kjördæminu

Ísland eða fleiri kjördæmum. Sagan sýnir reyndar að þeir þingmenn sem kjörnir eru fyrir hin mismunandi kjördæmi hafa margir hverjir búið árum og jafnvel áratugum saman á Reykjavíkursvæðinu en samt unnið að fullum heilindum fyrir „sín" byggðarlög. Einnig eru þingmenn í núverandi kerfi að bjóða sig fram í kjördæmum sem þeir hafa aldrei búið í eða starfað í.

Fækka ætti þingmönnum t.d. niður í 51. Ef alþingismaður veldist í ráðherraembætti ætti að kalla inn varaþingmann fyrir hann.

Ráðherrar mættu jafnt sem áður sitja á alþingi og koma að umræðum en ættu ekki að hafa atkvæðarétt.

Forsetinn ætti ekki að hafa vald til að synja lögum staðfestingar. Þess í stað ætti minnihluti þingmanna að hafa það vald að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Ég tel að þetta yrði til þess að í stórum málum sem skipta alla þjóðina miklu máli þá yrðu þingmenn að vinna betur saman heldur en nú er og ná breiðri samstöðu, sem þá væntanlega endurspeglaði vilja mikils meirihluta þjóðarinnar.

Ákveðið hlutfall kosningabærra manna, tiltölulega hátt ætti að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um hverskonar mál er lúta að auðlindum landsins og einnig að málum sem lúta að hverskonar fullveldisafsali til annarra þjóða eða þjóðabandalaga.

Koma þarf skýrt fram í stjórnarskránni að auðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar. Einnig þarf að skilgreina sérstaklega hvað telst til sameiginlegra auðlinda. Hvar eru skilin milli almanna eigna og eignaréttar einstaklingsins.

Eiga t.d. landeigendur allan nýtingarétt á því sem kemur úr jörðu hjá þeim hvort heldur sem það er á 20m dýpi, 100m dýpi eða 3000m dýpi? Hvað þá með sjávarfang o.s.frv.

Varðandi arð af auðlindunum tel ég að það verði að ákveða með lögum gjaldtöku til ríkisins, það sé erfitt að skilgreina það í stjórnarskrá þar sem auðlindir eru breytilegar frá einum tíma til annars og geta jafnvel horfið með öllu.

Samofið við nýtingu auðlindanna er svo umgengni við umhverfið og umhverfisvernd sem ætti að skilgreina í stjórnarskrá.






Skoðun

Sjá meira


×