Skoðun

Allir um borð!

Sigurjón Jónasson skrifar

Eftir að hafa siglt lygnan sjó í nokkur ár beið íslenska þjóðarskútan skipbrot á haustdögum 2008. Síðan þá hafa stjórnvöld verið að negla fyrir götin á skrokknum og ausa sjó úr skútunni svo við gætum öll haldið siglingunni áfram. En er verið að stíma í rétta átt?

Á síðustu dögum hef ég hitt fjölmarga frambjóðendur til stjórnlagaþings og ég verð að segja að ég hef ekki verið svona bjartsýnn á framtíð Íslands lengi. Viðmót þessa fólks er yndislegt. Bjartsýnin, einhugurinn og samstaðan um að búa okkur betra samfélag fær mann til að fyllast stolti. Stolti af því að vera Íslendingur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að út úr stjórnlagaþingi kemur eitthvað gott. Í framboði er mikið magn af hæfu fólki með gott hjartalag sem er fyllilega treystandi til þess að endurskoða stjórnarskrána af yfirvegun og virðingu fyrir því sem þar stendur.

Núverandi fyrirkomulag á Alþingi virkar ekki sem skyldi þegar á reynir. Alþingismenn vinna fyrst og fremst að því að viðhalda flokki sínum og þ.a.l. sjálfum sér á þingi og setja þar með þarfir fólksins í landinu aftar í forgangsröðina. Enda hefur það komið á daginn að innan við 10% landsmanna treysta Alþingi, sem segir okkur það að núverandi fyrirkomulag í stjórnmálum á Íslandi er komið í þrot. Þó svo að samfélagið breytist ekki á svipstundu eftir stjórnlagaþing er þetta fyrsta skrefið í rétta átt. Það mun taka nokkur ár að byggja upp traust á stjórnkerfinu á nýjan leik, en það mun hafast. Sannaðu til.

En til þess að mark verði tekið á útkomu stjórnlagaþings þarf tvennt: Góða kjörsókn og samstöðu verðandi þátttakenda á stjórnlagaþingi. Því er mjög mikilvægt að þú, kjósandi góður, látir þitt ekki eftir liggja og mætir á kjörstað þann 27. nóvember nk. og sýnir samstöðu í verki.






Skoðun

Sjá meira


×